Landsliðsþjálfari bað leikmenn afsökunar

Jón Þór Hauksson
Jón Þór Hauksson mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jón Þór Hauksson, landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu, segist í samtali við netmiðilinn Fótbolta.net hafa haft samband við landsliðskonur og beðist afsökunar á framkomu sinni í Ungverjalandi í vikunni. 

Í frétt Fótbolta.net kemur fram að miðlinum hafi borist „fjöldi ábendinga“ um að „uppákoma“ hafi orðið um kvöldið eftir leikinn gegn Ungverjalandi þegar EM-sætið var tryggt og hópurinn fagnaði árangrinum sem náðst hafði. 

Þar kemur jafnframt fram að málið snúist um samskipti þjálfarans við ónafngreindar landsliðskonur sem hann hafi rætt við um kvöldið. 

Jón tjáði Fótbolta.net að hann hefði beðið nokkra þessara leikmanna afsökunar og hann hefði sem þjálfari liðsins gert mistök með því að taka þátt í fögnuði með leikmönnum. Hann hefði átt samtöl við leikmenn um kvöldið sem hvorki hefði verið staður né stund fyrir á milli þjálfara og leikmanna. 

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, sagði málið vera til skoðunar hjá sambandinu þegar Fótbolti.net leitaði viðbragða hjá henni.

mbl.is