Sara Björk barnshafandi

Sara Björk Gunnarsdóttir er barnshafandi.
Sara Björk Gunnarsdóttir er barnshafandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði Íslands í knattspyrnu, er barnshafandi. Þetta staðfesti hún á samfélagsmiðlinum Instagram í dag.

Miðjukonan, sem hefur ekki leikið með félagsliði sínu, Lyon, í síðustu leikjum vegna meiðsla á hásin, er sett í nóvember en hún er í sambandi með knattspyrnumanninum Árna Vilhjálmssyni.

Sara Björk, sem er þrítug, er leikjahæsta landsliðskona Íslands frá upphafi en alls á hún að baki 136 A-landsleiki þar sem hún hefur skorað 22 mörk.

Íslenska kvennalandsliðið hefur leik í undankeppni HM 2023 í september á þessu ári og því ljóst að hún mun missa af þeim leikjum.

Lokakeppni EM 2022 fer fram á Englandi næsta sumar en mótið hefst 6. júlí og lýkur með úrslitaleik hinn 31. júlí.mbl.is