Leiðtogalausar þegar á móti blæs

Helena Ósk Hálfdánardóttir og Elín Helena Karlsdóttir eigast við í …
Helena Ósk Hálfdánardóttir og Elín Helena Karlsdóttir eigast við í Árbænum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Valgerður Ósk Valsdóttir bjargaði stigi fyrir Fylki þegar liðið fékk Keflavík í heimsókn í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Würth-völlinn í Árbænum í 4. umferð deildarinnar í kvöld. 

Leiknum lauk með 1:1-jafntefli en Valgerður skoraði jöfnunarmark Fylkis um miðjan síðari hálfleikinn.

Fylkiskonur byrjuðu leikinn af miklum krafti og voru miklu sterkari aðilinn fyrsta hálftímann.

Á 31. mínútu fór Aerial Chavarin ansi illa með varnarmenn Fylkis og labbaði í gegnum þá.

Chavarin átti frábæra sendingu á Dröfn Einarsdóttur sem var komin ein í gegn og Dröfn þrumaði boltanum frábærlega fram hjá Tinnu Brá Magnúsdóttur í marki Fylkis.

Keflavík fékk betri færi það sem eftir lifði hálfleiksins en Tinna Brá í marki Fylkis varði nokkrum sinnum vel og staðan því 1:0 í hálfleik.

Fylkiskonur fengu vítaspyrnu fyrir ansi litlar sakir á 61. mínútu en Bryndís Arna Níelsdóttir lét Tiffany Sornapo verja frá sér.

Frákastið hrökk hins vegar til Valgerðar Óskar Valsdóttur sem skoraði í autt markið og staðan orðin 1:1.

Fylkiskonur eru áfram í neðsta sæti deildarinnar en þó komnar á blað og með eitt stig eftir þrjá leiki.

Keflavík er hins vegar með 3 stig í áttunda sætinu, jafn mörg stig og Þróttur, ÍBV, og Þór/KA.

Tiffany Sornpao í baráttunni við Bryndísi Örnu Níelsdóttur.
Tiffany Sornpao í baráttunni við Bryndísi Örnu Níelsdóttur. mbl.is/ Eggert Jóhannsson

Leiðtogalausir Árbæingar

Fylkiskonur byrjuðu leikinn af miklum krafti og voru miklu betri fyrsta hálftímann. Þeim tókst hins vegar ekki að nýta yfirburði sína sem skildi en Fylkiskonur hefðu átt að vera búnar að skora fyrsta mark leiksins á þessum tíma.

Keflvíkingar voru í miklu basli til að byrja með. Þær voru að reyna spila boltanum frá aftasta manni en það var allt of langt í miðjumenn og kantmenn liðsins. Af þeim sökum fengu þær fjóra sóknarmenn Fylkis á sig trekk í trekk.

Eftir að þær komust yfir í leiknum virtist skrekkurinn fara aðeins úr þeim og þær fóru að láta boltann ganga miklu betur á milli sín.

Á sama tíma brotnaði Fylkisliðið algjörlega við að fá þetta mark á sig og Keflavík gekk á lagið. Keflvíkingar fengu dauðafæri undir lok fyrri hálfleiks og ef þær hefðu skorað hefðu þær eflaust gengið frá leiknum.

Um miðjan fyrri hálfleikinn fengu Fylkiskonur gefins vítaspyrnu frá Helga Ólafssyni, dómara leiksins, en frammistaða dómarans í kvöld var ein sú slakasta sem undirritaður hefur séð á Íslandi.

Eftir að Fylkiskonur jöfnuðu leikinn hefðu úrslitin getað dottið báðum liðum í hag og því jafntefli eflaust sanngjarnasta niðurstaðan.

Fylkiskonur eru með 1 stig og virka því miður leiðtogalausar þegar á móti blæs. Liðið má ekki við miklum mótbyr og leikmenn liðsins verða að herða sig aðeins og horfa fram veginn þótt þær lendi undir því ef þær hefðu ekki fengið þessa vítaspyrnu þá hefðu þær tapað leiknum.

Á sama tíma þarf Keflavík að slípa sig betur saman því það var ekki góður taktur í liðinu framan af. Eins þá þurfa Keflvíkingar að fara breyta þessum jafnteflum í sigurleiki ef þær ætla að hífa sig frá botnsvæðinu því þær eru með hópinn til að vera í efri hluta deildarinnar.

Ef enginn í Fylkisliðinu ætlar að stíga upp í sumar gæti tímabilið orðið ansi erfitt í Árbænum og liðið allt eins fallið. Á sama tíma er blandan góð í Keflavíkurliðinu og ekkert því til fyrirstöðu að þær haldi sæti sínu í deildinni, þær eru nefnilega með leikmann upp á topp sem minnir mann óneitanlega mikið á Sveindísi Jane Jónsdóttur.

Fylkir 1:1 Keflavík opna loka
90. mín. Aerial Chavarin (Keflavík) á skalla sem er varinn Boltinn hrekkur af Aerial og Fylkiskonur nánast bjarga á marklínu.
mbl.is