Undirbýr liðið fyrir keppnisleik

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins.
Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Ég vonast til þess að halda áfram að þróa okkar leik í þessu verkefni,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, á Teams-blaðamannafundi íslenska liðsins í dag.

Ísland mætir Írlandi í tveimur vináttuleikjum, dagana 11. júní og 15. júní, en báðir leikirnir fara fram á Laugardalsvelli.

„Við förum inn í þetta verkefni eins og við séum að fara spila venjulegan keppnisleik. Á Ítalíu vorum við búin að plana allar innáskiptingar, að mestu leyti, í fyrri leiknum gegn þeim.

Þar vorum við með fjórar skiptingar klárar, mínútu fyrir mínútu, en við förum ekki inn í þetta verkefni á þann hátt, allavega ekki í fyrri leikinn gegn Írum.

Við munum skoða hvernig leikmennirnir koma út úr leiknum á föstudaginn, hvernig standi þær eru í og annað, og meta svo stöðuna varðandi seinni leikinn eftir það,“ sagði Þorsteinn.

Íslenska kvennalandsliðið fagnar marki í vináttuleik gegn Ítalíu í Firenze …
Íslenska kvennalandsliðið fagnar marki í vináttuleik gegn Ítalíu í Firenze á Ítalíu í apríl. Ljósmynd/KSÍ

Sterkari á pappír

Þorsteinn tók við íslenska kvennalandsliðinu í lok janúar á þessu ári og er á leið inn í sitt annað verkefni með íslenska liðið.

„Við förum aðeins dýpra inn í ákveðna hluti núna en á Ítalíu. Ég sagði það fyrir síðasta verkefni að við myndum ekki fara yfir alla þá hluti sem við viljum innstimpla inn í liðið.

Við höfum reynt að dempa þetta aðeins niður og núna erum við að fara aðeins dýpra í ákveðna hluti, meðal annars hvernig við viljum verjast og eins varðandi hápressu og annað.“

Ísland er sem stendur í 17. sæti heimslista FIFA en Írland er í 34. sæti.

„Við ættum að vera sterkari en þær á pappír en á sama tíma þá eru þær fastar fyrir og spila mjög beinskeyttan fótbolta. Þær eru skipulagðar baka til, beita skyndisóknum og mjög sterkar í föstum leikatriðum. Þetta er kröftugt lið sem reynir að halda boltanum en getur líka spilað langt fram á völlinn,“ bætti Þorsteinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert