Erfiður útivöllur

Kristján Flóki í baráttunni við Brynjar Hlöðversson í kvöld.
Kristján Flóki í baráttunni við Brynjar Hlöðversson í kvöld. mbl.is/Unnur Karen

Kristján Flóki Finnbogason leikmaður KR var sáttur við 2:0-sigur liðsins á Leiknismönnum í Pepsi Max-deild karla í fótbolta í kvöld.

Yfirburðir KR voru miklir í kvöld. 

KR komst yfir strax á fimmtu mín­útu leiks­ins með marki Pálma Rafns Pálma­son­ar. Leikn­is­menn höfðu eng­in svör við leik KR-inga, sem voru á und­an í flesta bolta og gerðu heimamönnum oft erfitt fyrir að halda spilinu gangandi. 

Kjart­an Henry Finn­boga­son skoraði annað mark KR á 50. mín­útu eft­ir frá­bær til­frif Kristjáns Flóka. Skot Kristjáns leit út fyr­ir að vera á leið í markið, en Kjart­an ákvað þó að gull­tryggja markið fyr­ir opnu marki. 

„Þetta er mjög erfiður útivöllur og ég er mjög sáttur að hafa tekið þrjú stig,“ segir Kristján í samtali við mbl.is. Hann segir að lykillinn að sigrinum hafi verið barátta liðsins: „Við bara mættum og ætluðum að sigra þetta og það skilaði sér.“

Kristján segist ekkert svekktur yfir því að hafa misst mark til Kjartans. 

„Mér fannst bara geggjað að við skoruðum, það telur jafn mikið og ef ég hefði skorað.“

Kristján hefur verið óheppinn með meiðsli undanfarið en það var ekki að sjá á frammistöðu hans í kvöld. 

„Ég er heill, ég ákvað að biðja um skiptingu áður en ég færi að meiða mig. Það var mjög gott að ná 80 mínútum í fyrsta skipti í mjög langan tíma,“ segir Kristján. 

Næst á dagskrá hjá KR-ingum er útileikur á móti toppliði Víkings á sunnudag. 

„Ég hugsa að við komum eins inn í þann leik og tökum þrjú stig í Fossvoginum,“ segir Kristján um leikinn. 

KR situr nú í þriðja sæti deildarinnar með 14 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert