Vonast eftir fleiri áhorfendum á morgun

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir á æfingu landsliðsins í dag.
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir á æfingu landsliðsins í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu og leikmaður Orlando Pride í Bandaríkjunum, segist vonast eftir því að fleiri áhorfendur leggi leið sína í Laugardalinn á morgun og horfi á íslenska kvennalandsliðið leika öðru sinni gegn Írlandi.

Ísland vann fyrri vináttuleikinn 3:2 á föstudag þar sem liðið komst í 3:0 í fyrri hálfleik en slakaði á klónni í þeim síðari og fékk á sig tvö mörk.

„Ég held að heilt yfir getum við verið sáttar við leikinn. Við þurfum auðvitað að laga nokkra hluti en við héldum boltanum vel og pressuðum vel þegar við þurftum.

En við þurfum ennþá að bæta okkar leik, við erum að vinna í því sem við ætlum að leggja áherslu á til þess að verða betri og betri,“ sagði Gunnhildur Yrsa á blaðamannafundi á Laugardalsvelli í dag.

Hún sagðist hafa verið ánægð með stuðning þeirra tæplega 500 áhorfenda sem mættu á fyrri leikinn en hún vilji fá fleiri á leikinn á morgun.

„Já, en auðvitað vil ég fá sem flesta áhorfendur. Auðvitað er það mikilvægt fyrir okkur að finna fyrir stuðningnum. Þeir sem mættu á fyrri leikinn voru flottir og létu heyra í sér. Það er alltaf gaman að spila á Laugardalsvelli en vonandi mæta fleiri á næsta leik.“

Annar vináttuleikur Íslands og Írlands hefst klukkan 17 á morgun.

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir í baráttunni í fyrri vináttulandsleik Íslands og …
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir í baráttunni í fyrri vináttulandsleik Íslands og Írlands á föstudag. Eggert Jóhannesson
mbl.is