Smá óðagot á henni stundum

Íslensku leikmennirnir fagna eftir að Karólína Vilhjálmsdóttir bætti við öðru …
Íslensku leikmennirnir fagna eftir að Karólína Vilhjálmsdóttir bætti við öðru markinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við vorum í smá vandræðum í fyrri hálfleik, þótt þær hafi ekki skapað nein færi,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari kvenna í fótbolta, á blaðamannafundi eftir 2:0-sigur Íslands á Írlandi í vináttuleik í kvöld. 

Ísland spilaði ekki vel í markalausum fyrri hálfleik en það var allt annað að sjá liðið í seinni hálfleik. „Við fórum vel yfir það í hálfleik og við vorum miklu þéttari og betri í seinni hálfleik. Við fórum yfir skipulagið og löguðum það sem við þurftum að laga.

Við löguðum færslur í varnarleiknum, unnum boltann framar og gerðum þeim erfiðara fyrir í að spila boltanum út úr vörninni. Það var smá misskilningur hvernig við vorum að gera það í fyrri hálfleik en við bættum út úr því í seinni hálfleik,“ sagði Þorsteinn. 

Hann er nokkuð ánægður heilt yfir með tvo sigra á móti Írlandi, en Ísland vann sama andstæðing 3:2 á föstudaginn var. „Það var gott að vinna. Við hefðum getað skorað fleiri í dag því við sköpuðum góð færi sem við hefðum getað nýtt. Heilt yfir er ég hinsvegar ánægður og það var stígandi í þessu hjá okkur. Fyrri hálfleikurinn var ekkert sérstakur en seinni hálfleikurinn var góður.“

Hin 17 ára gamla Cecilía Rán Rúnarsdóttir stóð í markinu í kvöld og hin 18 ára gamla Hafrún Rakel Halldórsdóttir í hægri bakverðinum. Þorsteinn var ánægður með þeirra frammistöðu. 

„Cecilía gerði vel það sem hún þurfti að gera. Hún þurfti bara einu sinni að skutla sér á eftir skoti og hún gerði það vel. Hún var svo örugg í því sem hún þurfti að gera. Hafrún var fín í vörninni, þótt það hafi verið smá óðagot á henni stundum þá spilaði hún heilt yfir vel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert