Bæði lið örugglega ósátt við að fá eitt stig

Brynjar Gauti Guðjónsson, fyrirliði Stjörnunnar.
Brynjar Gauti Guðjónsson, fyrirliði Stjörnunnar. Ljósmynd/Guðmundur Bjarki Halldórsson

Brynjar Gauti Guðjónsson, fyrirliði og varnarmaður Stjörnunnar, telur bæði lið hafa verið nokkuð ósátt við niðurstöðuna þegar Stjarnan og FH skildu jöfn, 1:1, í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu í kvöld.

„Sáttur og ekki sáttur. Ég held að þetta hafi bara verið hörkuleikur tveggja góðra liða og bæði lið fengu færi og bæði lið örugglega pínu ósátt við að hafa bara fengið eitt stig úr þessum leik. Ég hefði alveg viljað taka þrjú stig og mér fannst við alveg fá tækifæri til þess,“ sagði Brynjar Gauti í samtali við mbl.is, spurður hvort hann væri sáttur við úrslit leiksins.

Brynjar Gauti kvaðst nokkuð ánægður með spilamennsku Stjörnumanna í kvöld. „Mér fannst þetta nokkuð fínt bara, nokkuð gott. Mér fannst við vera þéttir, það var einu sinni til tvisvar sem þeir komust inn fyrir okkur en Halli [Haraldur Björnsson markvörður] réð vel við það.

Svo vorum við aggressívir í pressunni og vorum að ná að vinna boltann hátt á vellinum og koma okkur í fínar stöðu en það vantaði kannski aðeins upp á seinustu sendinguna og síðasta slúttið, sem hefur svona verið saga sumarsins hjá okkur hingað til,“ sagði hann.

Eftir afleita byrjun á tímabilinu unnu Garðbæingar sinn fyrsta sigur í deildinni í sumar um síðastliðna helgi og fylgdu því eftir með stigi í Kaplakrika í kvöld.

„Það voru allir tilbúnir að henda sér fyrir boltann og tilbúnir til að fórna sér fyrir stigið. Mér fannst við halda þeim í skefjum og gott betur en það. Stigin hafa ekki verið jafn mörg og við hefðum viljað hingað til en við erum bara þannig stilltir að okkur er alveg sama hverjum við erum að fara að mæta, hvort sem það er Valur, FH eða eitthvað annað.

Við teljum okkur eiga í fullu tré við öll liðin í þessari deild og mér finnst við hafa sýnt það í sumar að þó að stigin hafi ekki verið nógu mörg þá hafi þetta allt verið 50/50 leikir þar sem með smá heppni og kannski aðeins meiri gæðum í að klára færin okkar værum við komnir með miklu fleiri stig. Þannig að við erum bara með kassann út í loftið og hökuna upp,“ sagði Brynjar Gauti að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is