Úrvalsdeildartoppslagur á Dalvík - hvað gerist í fallbaráttunni?

Haukur Páll Sigurðsson og Hallgrímur Mar Steingrímsson í baráttunni í …
Haukur Páll Sigurðsson og Hallgrímur Mar Steingrímsson í baráttunni í leik Vals og KA sumarið 2019. Arnþór Birkisson

Fimm leikir fara fram í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, í dag og í kvöld. Þar á meðal eru toppslagur á Dalvíkurvelli og mikilvægir slagir í neðri hluta deildarinnar.

Leikirnir eru liður í 10. umferð deildarinnar, þó aðeins Valur og Stjarnan hafi leikið í öllum níu umferðunum til þessa.

Umferðin hefst á stórleik þegar KA, sem er í 3. sæti, tekur á móti toppliði Vals á Dalvíkurvelli þar sem Greifavöllur KA-manna er ekki enn reiðubúinn til notkunar.

KA, sem er með 16 stig, hefur aðeins leikið sjö leiki á móti níu leikjum Vals, sem er með 20 stig, og getur því með sigri í dag gert sig gildandi í toppbaráttunni.

KA hefur unnið tvo síðustu leiki sína á meðan Íslandsmeistararnir geta náð í úrslit burtséð frá spilamennsku og er því von á hörkuleik, sem hefst klukkan 16.

Fallbarátta eður ei?

Tveir leikir hefjast svo klukkan 17. Báðir eru þeir afar mikilvægir í baráttunni í neðri hluta deildarinnar.

Afar stutt er á milli liðanna í sætum 7 – 12 og hvert stig bráðnauðsynlegt.

Fylkir, sem er í 8. sæti með 7 stig, tekur á móti botnliði ÍA, sem er þó skammt undan með 5 stig.

Bæði lið hafa aðeins unnið einn af leikjunum sínum átta í deildinni til þessa í sumar og renna því hýru auga til þessarar viðureignar með það fyrir augum að spyrna við fótunum.

Eru Stjörnumenn loks komnir á beinu brautina?
Eru Stjörnumenn loks komnir á beinu brautina? mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjarnan tekur svo á móti HK þar sem það nákvæmlega sama er uppi á teningnum. Stjarnan er með 7 stig í 9. sæti og HK í 10. sæti með 6 stig.

Garðbæingar hófu tímabilið afleitlega en unnu sinn fyrsta og eina sigur á tímabilinu á dögunum, gegn Íslandsmeisturum Vals, og fylgdu því eftir með jafntefli gegn FH í Kaplakrika.

Garðbæingar virðast því loks búnir að finna fjölina á meðan HK tapaði gegn Keflavík í síðustu umferð, þó fyrsti og eini sigur liðsins hafi komið gegn Leikni úr Reykjavík í umferðinni á undan.

Keflavík og Leiknir úr Reykjavík mætast svo einmitt í nýliðaslag suður með sjó klukkan 19.15. Gengi Leiknismanna hefur verið vonum framar þar sem liðið er í 7. sæti með 8 stig.

Sem áður segir er þó mjög stutt í liðin fyrir neðan, þar á meðal Keflavík, sem er með 6 stig í 11. sæti.

Keflavík og Leiknir eru einu liðin af þeim sex sem eru í neðri hluta deildarinnar sem hafa unnið tvo leiki í sumar. Keflavík á auk þess leik til góða á öll liðin, og raunar tvo á Stjörnuna, í þessum pakka.

Því verður afar athyglisvert að sjá hvernig staðan lítur út í neðri hlutanum að loknum þessum þremur leikjum í kvöld.

Hafa engan áhuga á að sigla lygnan sjó

Þá er ógetið fimmta leiksins, sem er mjög forvitnilegur stórslagur milli Breiðabliks og FH í Kópavoginum.

Tímabil beggja liða til þessa í deildinni hefur verið vonbrigði, enda í 5. og 6. sæti, nokkuð frá toppbaráttunni. Blikar eru með 13 stig og FH-ingar með 11 stig þegar bæði lið hafa leikið átta leiki.

Í leiknum, sem hefst klukkan 19.15, gefst því kjörið tækifæri fyrir bæði lið til þess að hrista af sér slenið, reyna að næla í sigur og koma sér þar með nær toppliðunum.

Breiðablik og FH mætast í kvöld.
Breiðablik og FH mætast í kvöld. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Blikar eru í öllu betra formi fyrir leikinn, hafandi unnið þrjá af síðustu fimm leikjum sínum, þótt hinir tveir hafi tapast.

Á meðan hefur FH ekki unnið í síðustu fjórum leikjum, þar af þrjú töp í röð og svo jafntefli í síðustu umferð gegn Stjörnunni.

Leikir dagsins og kvöldsins í Pepsi Max-deildinni:

KA – Valur kl. 16

Fylkir – ÍA kl. 17

Stjarnan – HK kl. 17

Keflavík – Leiknir R. kl. 19.15

Breiðablik – FH kl. 19.15

Allir leikirnir fimm verða í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

mbl.is