„Örugglega leiðinlegur leikur að horfa á“

Barist um boltann í Kórnum í kvöld.
Barist um boltann í Kórnum í kvöld. mbl.is/Unnur Karen

Arnþór Ari Atlason, leikmaður meistaraflokks HK í knattspyrnu, segir 0-0-jafntefli HK-liðsins við lið Víkinga í Pepsi Max-deildinni í kvöld vera sanngjarna niðurstöðu. 

Leikurinn var heldur tíðindalaus og hvorugt liðið náði að skapa sér færi af nokkru viti. 

„Þetta var frekar jafn leikur og örugglega frekar leiðinlegur leikur að horfa á. Það var mikil barátta úti um allan völl, lítið af færum, svo ég held að 0-0 hafi verið sanngjarnt,“ sagði Arnþór Ari í samtali við mbl.is að leik loknum. 

Þrátt fyrir heldur daufan leik náði Víkingur þokkalegum kafla í fyrri hálfleik. 

„Þeir náðu eftir svona korter, þokkalega fínum kafla þar sem þeir voru að komast ofarlega á völlinn með boltann þó að það hafi svo sem ekki verið nein færi. Svo löguðum við það í hálfleik og þeir sköpuðu sér ekki neitt í seinni hálfleik, og við ekki heldur,“ segir Arnþór Ari. 

Hvað var það sem vantaði helst upp á sóknarleikinn hjá ykkur? 

„Það vantaði kannski meiri ró á boltann hjá okkur öllum. Við ætluðum að fara alltaf strax af stað og skora í staðinn fyrir að anda aðeins, taka á móti boltanum, senda á næsta mann og færa aðeins þeirra lið fram og tilbaka. Við hefðum þá kannski náð að opna þá betur,“ segir Arnþór Ari. 

HK-ing­ar vildu und­ir blálok leiks­ins fá víti þegar brotið var á Arnþóri Ara í víta­teig Vík­inga. Arnþór segir að um klárt víti hafi verið að ræða og var að vonum ekki ánægður með dómgæslu leiksins. 

„Mér fannst hún hræðileg. Mér fannst það í rauninni til skammar hvernig leikurinn var dæmdur í dag. Ég er ekki vanur að koma hérna eftir leiki og kvarta undan dómaranum en þetta var gjörsamlega til skammar í dag og ég held að hann [Sig­urður Hjört­ur Þrast­ar­son, dómari leiksins] viti það,“ segir Arnþór. 

HK sit­ur áfram í fallsæti, 11. sæti deild­ar­inn­ar, tveimur stig­um á eft­ir liði FH eftir leikinn í kvöld. Arnþór segir stemninguna í hópnum vera góða og að nóg sé eftir af mótinu fyrir liðið til að rífa sig upp úr fallbaráttunni. 

„Það eru þokkalega margir leikir eftir og við getum alveg snúið þessu við. Við erum með gott lið og andinn í liðinu er góður og gæðin eru góð. Við þurfum bara að hafa trú á því sem við erum að gera, trú á okkur sjálfum og þá koma úrslitin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert