Við gáfum allt í þennan leik en hann var ekki sá sem felldi okkur

Fjolla Shala gegn Blikum.
Fjolla Shala gegn Blikum. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Við gáfum allt í þennan leik en hann er ekki leikurinn sem felldi okkur,“  sagði Fjolla Shala leikmaður Fylkis eftir sárgrætilegt 1:2 tap fyrir Þór/KA þegar liðin mættust í Árbænum í dag en tapið gerði út um vonir Fylkiskvenna að halda sér í efstu deild.

„Við höfum fengið marga leiki til að rífa okkur í gang en höfum bara ekki gert það og ekkert fallið með okkur í sumar.  Hvað gerist í þessum leik?  Við mætum ekki tilbúnar í leikinn, fáum tvö ódýr mörk á okkur og það hefur alltaf verið sama sagan hjá okkur í sumar.   Markið sem Þór/KA skorar á síðustu mínútu fyrri hálfleiks slær okkur útaf laginu.  Við erum með ungt lið, eitt það efnilegasta í deildinni og að við séum að falla er í raun fáránlegt og við eigum þetta ekki skilið.   Nú verðum við bara að standa saman sem hópur, taka þessa fyrstu deild, pakka henni saman og koma okkur sem fyrst aftur upp í efstu deild.  Ég er á því og ætla rétt að vona að allir liðsfélagar mínir séu það líka.  Maður gefst ekki bara upp og fer í annað lið,“  bætti Fjolla gallhörð við.

Sumarið í hnotskurn

Margrét Magnúsdóttir, einn af þjálfurum Fylkiskvenna, segir úrslitin í dag eins og sumarið í hnotskurn.  „Mér finnst þetta mikil vonbrigði og mjög svekkjandi. Við gáfum allt í leikinn en ég held að það hafi verið vendipunktur markið sem fengum á okkur í lok fyrri hálfleiks.  Við urðum þá að snúa leiknum við en það bara gekk ekki.  Ég held að þessi staða okkar hafi verið gegnum gangandi allt sumarið.  Við náðum ekki snúa stöðu okkar við, vorum oft nálægt því og ég held að flest allir leikirnir sem við töpuðum, fyrir utan leikinn gegn Val og Breiðablik, hafi tapast með einu marki.  Þá er það einhvern veginn að hlutirnir  falla á móti þér en ekki með þér.“

Margrét sagði ekkert ákveðið hvað gert verður í framhaldinu.  „Það er ómögulegt að segja hvað verður.  Félagið verður að taka næstu skref með þessari niðurstöðu og erfitt að segja.  Það verða örugglega einhverjar breytingar á þjálfarateyminu og líka í leikmannahópnum en það er bara félagsins og okkar að styrkja liðið og koma því upp aftur,“  bætti Margrét við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert