Verður ekki meira með á tímabilinu

Arnór Borg Guðjohnsen í leik gegn Stjörnunni í síðasta mánuði.
Arnór Borg Guðjohnsen í leik gegn Stjörnunni í síðasta mánuði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arnór Borg Guðjohnsen, sóknarmaður Fylkis í knattspyrnu, gekkst á dögunum undir aðgerð vegna kviðslits og verður því ekki meira með á tímabilinu.

Fótbolti.net greinir frá.

Meiðslin hefur hann glímt við frá því í apríl en hefur þrátt fyrir það spilað 11 af 20 deildarleikjum Fylkis í sumar og skoraði í þeim eitt mark.

Hann spilaði síðast í 0:2 tapi gegn Stjörnunni sem fór fram þann 23. ágúst.

Endurhæfingin eftir aðgerðina, sem var framkvæmd í Lundúnum, mun taka um mánuð og því er ljóst að Arnór mun ekki taka meiri þátt með Fylki á tímabilinu.

Fylkir rær lífróður í Pepsi Max-deildinni þar sem liðið er í næstneðsta sæti, fallsæti, þegar aðeins tvær umferðir eru eftir.

Þá tekur Fylkir á móti Víkingi úr Reykjavík í átta liða úrslitum bikarkeppninnar í kvöld.

mbl.is