Meistararnir með tilboð í leikmann HK

Birnir Snær Ingason hefur lengi verið á óskalista Víkinga.
Birnir Snær Ingason hefur lengi verið á óskalista Víkinga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslandsmeistarar Víkings úr Reykjavík hafa lagt fram tilboð í kantmanninn Birni Snæ Ingason. Þetta staðfesti Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga, í Dagmálum, frétta og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.

Arnar hefur lengi verið aðdáandi leikmannsins en Víkingar lögðu fram rausnarlegt tilboð í sóknarmanninn í sumarglugganum sem HK-ingar höfnuðu.

Birnir féll með HK úr efstu deild á dögunum en hann gekk til liðs við Kópavogsliðið sumarið 2019 frá Val.

Hann er uppalinn hjá Fjölni í Grafarvoginum en alls á hann að baki 121 leik í efstu deild þar sem hann hefur skorað 25 mörk.

Birnir skoraði sex mörk í 21 leik í efstu deild í sumar en HK-ingar höfnuðu í ellefta sæti deildarinnar og féllu í lokaumferðinni.

Á sama tíma stóðu Víkingar uppi sem sigurvegarar í efstu deild í fyrsta sinn í þrjátíu ár.

Ítarlegt viðtal við Arnar Gunnlaugsson birtist á vef Dagmála í fyrramálið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert