Er ekki að fara að væla í þjálfaranum hennar

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir hefur fengið fá tækifæri með félagsliði sínu …
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir hefur fengið fá tækifæri með félagsliði sínu Bayern München á tímabilinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það skiptir okkur máli að allir leikmenn séu að spila reglulega,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, á fjarfundi með blaðamönnum í dag.

Íslenska liðið undirbýr sig nú fyrir tvo mikilvæga leiki í undankeppni HM 2023, gegn Tékklandi og Kýpur, en báðir leikirnir fara fram á Laugardalsvelli.

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir hefur ekki fundið taktinn með félagsliði sínu Bayern München á tímabilinu og var ekki í hóp hjá liðinu þegar það tapaði 2:3-gegn Eintracht Frankfurt á útivelli um helgina.

„Ég er ekkert glaðasti maður í heimi þegar ég sé leikmenn tekna út úr hóp og að þeir fái lítið að spila,“ sagði Þorsteinn.

„Það skiptir hana auðvitað líka miklu máli í sinni framför að hún sé að spila reglulega og eins að það sé einhver stígandi í þessu, jafnvel þó þú sért ekki að byrja alla leiki. Vonandi tekst henni að vinna sig inn í þetta en á sama tíma er þetta risaklúbbur sem hún er að spila með og það eru frábærir leikmenn þarna.

Samkeppnin er gríðarlega mikil en ef hún kemst í gegnum hana þá hefur maður ekki miklar áhyggjur af henni. Ég hef auðvitað rætt aðeins við hana en það er voðalega lítið sem ég get gert. Ég er ekki að fara væla í þjálfaranum hennar og maður reynir bara fyrst og fremst að hvetja hana áfram í því sem hún er að gera,“ sagði Þorsteinn.

Karólína hefur einungis leikið þrettán mínútur í fyrstu sex deildarleikjum Bayern München á tímabilinu.

„Hún fer beint frá Íslandi í þennan risastóra klúbb og það var alveg vitað mál að það gæti tekið hana einhvern smátíma að verða alvöru leikmaður í þessu liði.

Á sama tíma hef ég fulla trú á því að hún geti orðið mjög mikilvægur leikmaður fyrir Bayern München,“ bætti Þorsteinn við.

Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari Íslands.
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is