Þetta er galið

Glódís Perla Viggósdóttir.
Glódís Perla Viggósdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Glódís Perla Viggósdóttir, leikmaður íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu og Bayern München í Þýskalandi, gagnrýndi þá ákvörðun UEFA að spila á æfingavelli Manchester City í lokakeppni EM 2022 á Englandi næsta sumar á fjarfundi með blaðamönnum í gær.

Miðvörðurinn hefur verið lykilmaður í íslenska liðinu undanfarinn áratug en hún er samningsbundin Bayern München í þýsku 1. deildinni.

Ísland leikur í D-riðli Evrópumeistaramótsins ásamt Frakklandi, Ítalíu og Belgíu en Ísland leikur tvo leiki í riðlakeppninni í Manchester þar sem aðeins er pláss fyrir 4.000 áhorfendur í stúkunni.

„Kvennaboltinn hefur verið í bakgrunni í allt of mörg ár en núna er loksins að koma smá bylgja sem er að lyfta kvennaboltanum á hærra stig, bæði í samfélaginu og í fjölmiðlum sem er frábært,“ sagði Glódís.

„Mér finnst það vanvirðing við kvennaboltann að spila á þessum velli og þetta er ekki í lagi. Það er mjög lélegt að UEFA hafi í raun samþykkt þetta. Það er uppselt á marga leiki hjá kvennaliðum víðs vegar í Evrópu, bæði félagsliðum og landsliðum þar sem um 15.000 manns eru að mæta á leikina.

Áhuginn er til staðar og þá verða að vera vellir til staðar líka. Vellirnir sem voru notaðir á EM 2017 í Hollandi sem dæmi voru miklu stærri og líka vellirnir á HM 2019 í Frakklandi og þar var uppselt á marga leiki.

Þetta er því alveg galið og þótt það séu ekki miklar líkur á því þá vona ég að leikirnir verði færðir því við getum fyllt mun stærri velli með bara Íslendingum, ef stemningin fyrir mótinu verður góð,“ bætti Glódís við.

mbl.is