Gamla ljósmyndin: Flugskalli

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Karlalandsliðið í knattspyrnu mætir Spáni í vináttulandsleik í vikunni. Íslendingum tókst að hrella stórkostlegt lið Spánverja á Laugardalsvellinum í september árið 2007 eða fyrir fimmtán árum tæpum. Var það rétt áður en Spánverjar lögðu knattspyrnuheiminn að fótum sér ef svo má segja. 

Leikurinn var í undankeppni EM 2008 og var nokkuð liðið á undankeppnina. Spánverjar höfðu ekki tryggt sér sæti í lokakeppninni og 1:1 jafntefli gegn Íslandi hjálpaði ekki til. Eftir að þýski dómarinn Wolfgang Stark hafði rekið Xabi Alonso af velli strax á 20. mínútu varð verkefnið erfitt fyrir spænska liðið. Alonso traðkaði á Arnari Þór Viðarssyni, núverandi landsliðsþjálfara. 

Emil Hallfreðsson skoraði glæsilegt skallamark og kom Íslandi yfir á 40. mínútu. Kastaði sér fram og skallaði í netið eftir fasta fyrirgjöf Jóhannesar Karls Guðjónssonar sem nú er aðstoðarlandsliðsþjálfari. 

Á myndinni horfir Emil á eftir knettinum fara í hægra hornið en myndina tók Kjartan Þorbjörnsson eða Golli. Birtist hún fyrst á forsíðu íþróttablaðs Morgunblaðsins 10. september. 

Andrés Iniesta kom Spáni til bjargar og jafnaði á 86. mínútu. Svo fór að Spánn vann keppnina og einnig næstu tvö stórmót. Spánn varð sem sagt Evrópumeistari 2008 og 2012 og heimsmeistari 2010. Skoraði Iniesta þá einmitt sigurmarkið í úrslitaleiknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert