Snýr Hólmar aftur í landsliðið?

Hólmar Örn Eyjólfsson gekk til liðs við Val frá Rosenborg …
Hólmar Örn Eyjólfsson gekk til liðs við Val frá Rosenborg í vetur. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu hefur biðlað til Hólmars Arnars Eyjólfssonar um að snúa aftur í landsliðið.

Það er 433.is sem greinir frá þessu en Hólmar, sem er 31 árs gamall, lagði landsliðsskóna á hilluna á síðasta ári.

Miðvörðurinn, sem hefur meðal annars leikið með Celtenham, Roeselare, Bochum, Rosenborg, Maccabi Haifa og Levski Sofia á atvinnumannaferli sínum, er í dag samningsbundinn Val í Bestu deildinni.

Hann á að baki 19 A-landsleiki þar sem hann hefur skorað tvö mörk en hann lék sinn fyrsta landsleik árið 2012.

Ísland mætir Ísrael og Albaníu í B-deild Þjóðadeildar UEFA í júní og loks San Marínó í vináttulandsleik en má búast við því að Arnar Þór tilkynni landsliðshóp sinn fyrir komandi verkefni liðsins á næstu vikum. 

mbl.is