Markmiðið að vinna leik á EM

Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari.
Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, segir að fyrsta markmið liðsins á EM 2022 á Englandi verði að vinna leik í D-riðlinum, enda opni það á mikla möguleika.

„Í grunninn er markmiðið bara að vinna leik. Ef við vinnum leik er allt hægt en í fyrsta lagi þurfum við að mæta í fyrsta leik og reyna að vinna hann.

Svo er bara næsti leikur, að reyna að vinna hann, og svo gengur þetta bara svoleiðis koll af kolli. Í grunninn, til að ná einhverjum árangri þá þarftu að vinna fótboltaleik, og það er raunverulega bara grunnmarkmiðið.

Að byrja á að vinna einn fótboltaleik og sjá hverju það skilar okkur svo í framhaldinu, hvað við getum gert eftir það,“ sagði Þorsteinn í samtali við KSÍ í dag.

Þægilegt og notalegt að vera hér

Íslenska liðið og starfsfólk dvelur nú í Herzogenaurach í Þýskalandi þar sem liðið undirbýr sig enn frekar áður en það heldur til Englands. Að hverju er liðið að vinna um þessar mundir?

„Bara halda áfram að vinna í sóknarleik, varnarleik. Við erum að fara meira yfir í taktíska hluti og bara skerpa á liðinu og gera okkur raunverulega klárar fyrir England,“ sagði Þorsteinn og bætti því við að vel færi um liðið í Þýskalandi.

„Aðstæður eru virkilega góðar. Það er mjög heitt, það er í heitari kantinum en það er flott æfingasvæði, fínt hótel og það er mjög þægilegt og notalegt að vera hérna.

Okkur líður bara vel hérna og ég held að það sé bara gott fyrir okkur að kúpla okkur aðeins út og svo mætum við fersk til Englands eftir nokkra daga.“

Lítur leikinn jákvæðari augum

Þorsteinn var einnig spurður út í 3:1-sigur Íslands á Póllandi í vináttulandsleik þar ytra.

„Manni fannst strax eftir leik að seinni hálfleikurinn hafi bara verið góður og fyrri hálfleikur slakur í grunninn en eftir að hafa horft á leikinn aftur og aftur þá horfði maður miklu jákvæðari augum á fyrri hálfleikinn.

Það voru alveg mikið af möguleikur til þess að búa til dauðafæri. Við vorum alveg að fá einhver færi en við fengum fullt af góðum sénsum til þess að skapa meira og það var margt jákvætt í fyrri hálfleiknum líka, sérstaklega fyrri helminginn af honum.

Auðvitað kom kafli þarna um miðbik og seinni part fyrri hálfleiks sem var ekkert sérstakur en þetta var alls ekkert slakur hálfleikur. Þannig að ég líta bara jákvæðum augum á Póllands-leikinn að flest öllu leyti,“ sagði hann.

mbl.is