Naumt hjá Blikum í Andorra

Ísak Snær Þorvaldsson kom Breiðabliki yfir strax á 14. mínútu.
Ísak Snær Þorvaldsson kom Breiðabliki yfir strax á 14. mínútu. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Breiðablik hafði betur gegn UE Santa Coloma frá Andorra á útivelli í fyrri leik liðanna í 1. umferð Sambandsdeildar karla í fótbolta í Andorra í dag, 1:0.

Eftir nokkuð jafnar upphafsmínútur komst Breiðablik yfir á 14. mínútu þegar Ísak Snær Þorvaldsson nýtti sér vandræði í vörn heimamanna og skoraði.

Ísak hafði heppnina með sér því hann fékk boltann í sig eftir tæklingu og þaðan sveif hann framhjá Marc Priego í marki heimamanna og inn.

Jason Daði Svanþórsson komst næst því að bæta við öðru marki fyrir Breiðablik í hálfleiknum en hann skallaði framhjá úr góðu færi eftir sendingu frá Höskuldi Gunnlaugssyni á 38. mínútu.

Heimamenn fengu einnig sín færi. Imad El Kabbou slapp inn fyrir vörn Breiðabliks á 19. mínútu en Anton Ari Einarsson gerði vel í að verja frá honum. Spánverjinn Virgili sýndi svo góða takta á 35. mínútu er hann lék á nokkra Blika og negldi boltanum í slánna utan teigs.

Fleiri urðu mörkin hinsvegar ekki í fyrri hálfleik og fór Breiðablik með 1:0-forskot inn í leikhléið.

Breiðablik skapaði sér lítið sem ekki neitt í seinni hálfleik á meðan heimamenn voru með takmörkuð gæði til að ógna marki Antons Ara og reyndist mark Ísaks í fyrri hálfleik vera sigurmarkið.

Seinni leikurinn fer fram á Kópavogsvelli eftir viku. Sigurliðið í einvíginu mætir annað hvort Budućnost Podgorica frá Svartfjallalandi eða Llapi frá Kósóvó í næstu umferð.

Sigurinn er sá fyrsti sem íslenskt lið vinnur á útivelli gegn Andorra í Evrópukeppni og var sigurinn eini útisigurinn í fyrstu 21 Evrópuleik vikunnar. Þá var Andorra fyrir ofan Ísland á styrkleikalistanum fyrir leikinn og því um sterkan sigur Blika að ræða. 

UE S.Coloma 0:1 Breiðablik opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti fimm mínútur í uppbótartíma. Heimamenn verið líklegri í seinni hálfleik en Anton Ari ekki þurft að taka á honum stóra sínum samt sem áður.
mbl.is