Skelfileg byrjun gerði út um vonir Blika

Blikar fagna marki í sumar.
Blikar fagna marki í sumar. mbl.is/Arnþór Birkisson

Breiðablik er úr leik í Meistaradeild kvenna í knattspyrnu eftir tap gegn Rosenborg í undanúrslitum 1. umferðar keppninnar í Þrándheimi í Noregi í dag.

Leiknum lauk með 4:2-sigri norska liðsins en staðan í hálfleik var 3:0, Rosenborg í vil.

Emile Nautnes kom Rosenborg yfir strax á 4. mínútu og Cesilie Andreassen bætti við öðru marki Rosenborgar sjö mínútum síðar.

Staðan var svo orðin 3:0 eftir 18 mínútna leik þegar Emilie Nautnes var aftur á ferðinni og skoraði annað mark sitt í leiknum.

Rosenborg skoraði svo fjórða mark leiksins strax í upphafi síðari hálfleiks þegar Nautnes fullkomnaði þrennuna.

Natasha Anasi minnkaði muninn fyrir Blika í 1:4 með skallamarki eftir hornspyrnu á 67. mínútu áður en Helena Ósk Hálfdánardóttir skoraði annað mark Blika þremur mínútum síðar eftir sendingu frá Öglu Maríu Albertsdóttur.

Fleiri mörk voru ekki skoruð í leiknum og Breiðablik er því úr leik en liðið mætir Slovácko frá Tékklandi í leik um 3. sæti riðilsins hinn 21. ágúst í Þrándheimi.

Landsliðskonan Selma Sól Magnúsdóttir var í liði Rosenborg gegn sínum gömlu félögum í Breiðabliki og spilaði allan leikinn á miðjunni.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Rosenborg 4:2 Breiðablik opna loka
90. mín. Leik lokið Leik lokið með 4:2-sigri Rosenborg sem er komið áfram í úrslit en Blikar eru úr leik og mæta Slovácko í leik um 3. sætið.
mbl.is