Verðlaunin fyrir allt sem maður hefur lagt á sig

Elísa Viðarsdóttir í leik með Val fyrr í sumar.
Elísa Viðarsdóttir í leik með Val fyrr í sumar. mbl.is/Hákon Pálsson

Breiðablik og Valur hefja leik í 1. umferð Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu í dag en Valur mætir Hayasa frá Armeníu í Radenci í Slóveníu í undanúrslitum fyrstu umferðarinnar klukkan 9 að íslenskum tíma.

Sigurvegarinn úr þeirri viðureign mætir annað hvort Promurje frá Sólveníu eða Shelbourne frá Írlandi í úrslitaleik um sæti í 2. umferð keppninnar hinn 21. ágúst í Radenci.

Klukkan 16 að íslenskum tíma mætir Breiðablik svo Rosenborg frá Noregi í Þrándheimi í Noregi í undanúrslitum en sigurvegarinn úr þeim leik mætir annað hvort Minsk frá Hvíta-Rússlandi eða Slovácko frá Tékklandi í úrslitaleik hinn 21. ágúst í Þrándheimi.

Takist íslensku liðunum að komast áfram í 2. umferð keppninnar verða þau í pottinum þegar dregið verður í næstu umferð í höfuðstöðvum UEFA í Nyon í Sviss 1. september.

Í 2. umferðinni verða leiknir tveir leikir, heima og að heiman, en það lið sem fer með sigur af hólmi í einvíginu hlýtur sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar á komandi keppnistímabili.

Dregið verður í riðla í Meistaradeildina hinn 3. október í Nyon í Sviss en riðlakeppnin verður leikin í október, nóvember og desember á þessu ári.

Langt og strangt ferðalag

„Þessi leikur gegn Hayasa leggst mjög vel í okkur,“ sagði Elísa Viðarsdóttir, fyrirliði Vals, í samtali við Morgunblaðið í gær.

„Við vitum í rauninni lítið sem ekkert um andstæðingana en það er liðsfundur hjá okkur seinni partinn þar sem við fáum einhverjar upplýsingar um mótherjana frá þjálfarateyminu. Við einblínum hins vegar fyrst og fremst á okkur sjálfar og við höfum trú á því að ef við höldum uppi sama takti og spilamennsku og við höfum verið að gera upp á síðkastið, þá sé engin spurning að við eigum að vinna þetta lið,“ sagði Elísa.

Valsliðið mætti til Slóveníu á mánudaginn og hefur því fengið góðan tíma ytra til þess að undirbúa sig fyrir leikinn.

„Ferðalagið gekk mjög vel og við lögðum af stað aðfaranótt mánudags. Við vorum mættar til Radenci upp úr hádegi á mánudegi. Þetta var langt og strangt ferðalag og einn af kostunum við það að koma svona snemma hingað er sá að við höfum fengið góðan tíma til þess að ná ferðaþreytunni úr okkur.

Við höfum líka fengið tíma til þess að aðlagast umhverfinu og venjast hitanum sem skiptir miklu máli en það er spáð í kringum 36° stiga hita á leikdegi, sem er svakalegt. Við skoðuðum svo keppnisvöllinn í gær og ég get alveg viðurkennt það að þetta eru engar toppaðstæður. Við höfum klárlega séð betri velli í gegnum tíðina en þetta er hlutur sem við höfum enga stjórn á og við erum því að fara að spila á besta velli í heimi á morgun.“

Stöngin út í fyrra

Valsliðið er reynslunni ríkara frá síðustu leiktíð þar sem liðið féll úr keppni í 1. umferðinni eftir tap gegn þýska stórliðinu Hoffenheim.

„Svona ævintýri gefur hópnum ofboðslega mikið. Þetta er annað árið sem við tökum þátt í þessari 1. umferð og það er hægt að gera meiri kröfur núna um árangur en í fyrra til dæmis. Svona ferðalag þéttir hópinn og það er mjög gaman að taka þátt í svona verkefni. Þessir leikir eru allt öðruvísi en þeir sem við erum vanar heima, þar sem maður þekkir nánast hverja einustu hreyfingu hjá öllum leikmönnum Bestu deildarinnar á Íslandi.

Við vorum nálægt því að komast áfram í fyrra en þá var þetta stöngin út hjá okkur. Maður fann það strax þá hversu tilbúnar við vorum að taka þátt í þessu aftur og setja markið hátt. Markmiðið er að sjálfsögðu að komast áfram í næstu umferð og við erum svo sannarlega með liðið og hópinn til þess að gera það.“

Mikið ævintýrasumar

Elísa, sem er 31 árs gömul, var í leikmannahóp íslenska kvennalandsliðsins sem tók þátt í lokakeppni EM á Englandi í sumar en hún var í byrjunarliði íslenska liðsins í 1:1-jafnteflinu gegn Ítalíu í Manchester hinn 14. júlí.

„Þetta sumar hefur verið mikið ævintýri en það má alveg líta á það sem svo að þetta séu verðlaunin fyrir allt sem maður hefur lagt á sig í gegnum tíðina. EM og svo auðvitað þessi Meistaradeild eru augnablikin sem maður æfir fyrir. Þetta eru ótrúlega skemmtilegir tímar sem maður er að upplifa núna í fótboltanum, þrátt fyrir að vera komin yfir þrítugt, bætti Elísa við.

Viðtalið við Elísu ásamt viðtali við Öglu Maríu Albertsdóttur, leikmann Breiðabliks, má lesa í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »