Bjarni hættur með Njarðvíkinga

Bjarni Jóhannsson á hliðarlínunni í leik með KA fyrir nokkrum …
Bjarni Jóhannsson á hliðarlínunni í leik með KA fyrir nokkrum árum. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Bjarni Jóhannsson hefur látið af störfum sem þjálfari karlaliðs Njarðvíkur í knattspyrnu eftir að hafa stýrt liðinu til glæsilegs sigurs í 2. deild karla í ár.

Njarðvíkingar höfðu talsverða yfirburði í deildinni og leika á ný í 1. deild á næsta ári eftir þriggja ára fjarveru.

Bjarni hefur þjálfað meistaraflokkslið frá árinu 1985 með örstuttum hléum, en tímabilin sem meistaraflokksþjálfari eru 34 talsins. Hann varð í sumar fyrstur allra til að stýra liði í 600 leikjum á Íslandsmótinu og þar af eru 256 leikir í efstu deild karla.

Bjarni vann Íslands- og bikarmeistaratitlana með ÍBV árin 1997 og 1998 en liðið var tvöfaldur meistari fyrra árið. Þá urðu Fylkismenn bikarmeistarar undir hans stjórn árið 2001. Bjarni hefur þjálfað karlalið alla tíð en auk áðurnefndra félaga hefur hann þjálfað Þrótt í Neskaupstað, Tindastól, Grindavík, Breiðablik, Stjörnuna, KA og Vestra, ásamt því að vera aðstoðarþjálfari Ásgeirs Sigurvinssonar hjá Fram og aðstoðarþjálfari Eyjólfs Sverrissonar með karlalandslið Íslands.

Hann var að ljúka sínu öðru tímabili með Njarðvíkurliðið. 

Njarðvíkingar skýrðu frá þessu í dag og þar kom fram að Bjarni hefði ákveðið að framlengja ekki samning sinn við knattspyrnudeild félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert