Hetjan átti bara að spila 25 mínútur

Birnir Snær Ingason og Ólafur Guðmundsson eigast við í úrslitaleiknum …
Birnir Snær Ingason og Ólafur Guðmundsson eigast við í úrslitaleiknum í gær. mbl.is/Óttar

Hetja Víkings, Nikolaj Hansen, var glaður eftir 3:2-sigur liðsins á FH í framlengdum úrslitaleik Mjólkurbikars karla í knattspyrnu á Laugardalsvelli í gær.

„Þetta er frábært. Það var gaman að vinna og gaman að skora. Liðið stóð sig virkilega vel.“

Hansen byrjaði leikinn á bekknum en kom inná af miklum krafti og reyndist eins og áður sagði hetja Víkings.

„Ég er búinn að vera meiddur í tvo og hálfan mánuð. Ég hef varla spilað né æft svo það var ákveðið að ég gæti spilað 25 mínútur í dag. Svo fer þetta í framlengingu og ég þarf að spila lengur. Ég er búinn að æfa núna í tvær vikur og endurhæfingin gengur vel svo vonandi get ég hjálpað liðinu í síðustu fimm leikjunum.“

Flestir héldu að Hansen væri að tryggja Víkingi titilinn á 89. mínútu þegar hann kom Víkingi í 2:1. FH hins vegar jafnaði mínútu síðar og sendi leikinn í framlengingu.

„Það voru vonbrigði. Þetta var ljótt mark. Þeir skora strax í kjölfarið á fyrsta markinu okkar og svo gerist það aftur þarna. Við þurfum kannski að vinna í því en við unnum þetta í framlengingunni og það er það sem skiptir máli.“

Í framlengingunni skoraði Hansen svo sigurmarkið eftir einungis 18 sekúndur.

„Það var svo mikilvægt. Að skora strax og geta haldið því, unnið tíma og svoleiðis skipti öllu máli.“

Nikolaj Hansen.
Nikolaj Hansen. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert