Thelma skoraði fernu í öruggum sigri Íslands

Íslenska U15-ára landsliðið í knattspyrnu stillir sér upp fyrir leikinn …
Íslenska U15-ára landsliðið í knattspyrnu stillir sér upp fyrir leikinn í dag. Ljósmynd/KSÍ

Stúlknalandslið Íslands í knattspyrnu skipað leikmönnum 15 ára og yngri vann í dag frækinn 5:2-sigur á Tyrklandi á þróunarmóti UEFA í Póllandi. Varamaðurinn Thelma Karen Pálmadóttir, leikmaður FH, skoraði fernu fyrir íslenska liðið.

Hrafnhildur Salka Pálmadóttir, leikmaður Stjörnunnar, kom Íslandi í forystu á 34. mínútu og var staðan 1:0 í leikhléi.

Í síðari hálfleik hrönnuðust mörkin inn. Tyrkir jöfnuðu metin á 53. mínútu en fimm mínútum síðar kom Thelma Karen, sem hafði komið inn á sem varamaður í hálfleik, íslenska liðinu yfir á ný.

Hún skoraði svo annað mark sitt og þriðja mark Íslands á 65. mínútu.

Staðan því orðin 3:1 en fjörinu var þó hvergi nærri lokið.

Tyrkir minnkuðu muninn í 3:2 á 77. mínútu en á annarri mínútu uppbótartíma fullkomnaði Thelma Karen þrennuna og gerði sér svo lítið fyrir og bætti við fjórða marki sínu og fimmta marki Íslands á fjórðu mínútu uppbótartíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert