Meisturunum mistókst að skora í fyrsta sinn í sumar

Ísak Snær Þorvaldsson og Ægir Jarl Jónasson eigast við í …
Ísak Snær Þorvaldsson og Ægir Jarl Jónasson eigast við í Kópavoginum í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Kristján Flóki Finnbogason reyndist hetja KR þegar liðið heimsótti Íslandsmeistara Breiðabliks í efri hluta Bestu deildar karla í knattspyrnu á Kópavogsvöll í kvöld.

Leiknum lauk með 1:0-sigri KR en þetta var fyrsti heimaleikur Blika í deildinni í sumar þar sem þeim mistekst að skora mark.

Fyrri hálfleikurinn var lítið fyrir augað. Liðin skiptust á að vera með boltann og tókst hvorugu þeirra að skapa sér afgerandi marktækifæri.

Síðari hálfleikurinn byrjaði með látum og Kristján Flóki Finnbogason fékk besta færi leiksins á 47. mínútu þegar Atli Sigurjónsson átti frábæra fyrirgjöf frá hægri á Kristján Flóka sem var einn gegn Antoni Ara Einarssyni en Anton Ari varði mjög vel frá honum.

Tíu mínútum síðar átti Kristinn Jónsson frábæra fyrirgjöf frá vinstri, beint á kollinn á Kristjáni Flóka sem stangaði boltann í netið af stuttu færi og staðan orðin 1:0.

Eftir markið hresstust Blikar og Ísak Snær Þorvaldsson slepp einn í gegn á 63. mínútu en Aron Þórður Albertsson elti hann uppi og kastaði sér fyrir skot Ísaks og bjargað um leið marki.

Tveimur mínútum síðar átti Gísli Eyjólfsson frábært skot, rétt utan teigs, en boltinn fór í samskeytin og út.

Blikar áttu nokkur skot að marki KR-inga það sem eftir lifði leiks en tókst ekki að hitta markrammann.

Á sama tíma voru KR-ingar hættulegir í skyndisóknum sínum og áttu nokkrar hættulegar marktilraunir en Anton Ari var vandanum vaxinn í markinu.

KR fer með sigrinum upp í 37 stig og er áfram í fjórða sæti deildarinnar en Breiðablik, sem fagnaði Íslandsmeistaratitlinum á mánudaginn síðasta þegar Stjarnan lagði Víking úr Reykjavík að velli, er sem fyrr í efsta sætinu með 57 stig.

Breiðablik 0:1 KR opna loka
90. mín. Kristinn Jónsson (KR) á skot framhjá Kristinn með skot af 35 metra færi en boltinn hátt yfir markið.
mbl.is