Glenn krækir í tvær frá Eyjum

Sandra Voitane (til hægri) í leik með ÍBV gegn Keflavík …
Sandra Voitane (til hægri) í leik með ÍBV gegn Keflavík í sumar. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Lettneska landsliðskonan Sandra Voitane og Bandaríkjakonan Madison Wolfbauer hafa samið við knattspyrnudeild Keflavíkur um að leika með kvennaliðinu á næsta tímabili.

Báðar koma þær frá ÍBV, þar sem þær léku á síðasta tímabili undir stjórn Jonathans Glenns, sem tók nýverið við kvennaliði Keflavíkur.

Sandra er 23 ára en hún lék 16 deildarleiki og skoraði þrjú mörk fyrir ÍBV á síðasta tímabili og Madison lék átta leiki í deildinni og skoraði í þeim eitt mark.

„Sandra Voitane er landsliðskona frá Lettlandi sem hefur leikið 47 leiki með landsliðinu og skorað í þeim 14 mörk. Þá hefur hún verið fyrirliði liðsins. Með landsliðinu hefur hún tvisvar unnið Baltic Cup. Sandra spilar sem bakvörður en getur leyst fleiri stöður á vellinum.

Madison Wolfbauer er 23 ára fjölhæfur miðjumaður sem mun koma til með styrkja miðsvæði Keflavíkur. Madison spilaði með Bowling Green University og var fyrirliði liðsins þegar það tryggði sér MAC meistaratitilinn í NCAA deildinni.

Knattspyrnudeildin fagnar því að fá þessa öflugu leikmenn til liðsins,“ sagði meðal annars í tilkynningu frá knattspyrnudeild Keflavíkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert