Ísland nældi í jafntefli gegn Eistlandi

Eist­land og Ísland gerðu 1:1-jafntefli í vináttu­lands­leik karla í knatt­spyrnu á Esta­dio Nora leik­vang­in­um á Al­gar­ve í Portúgal í dag.

Andri Lucas Guðjohnsen skoraði mark Íslands og Sergei Zenjov setti mark Eistlands. 

Sókn íslenska liðsins var heldur bragðlaus í fyrri hálfleik og bestu tvö færi Íslands skapaði Dagur Dan Þórhallsson sem var hvað líflegastur af Íslendingunum. Fyrst tók hann á stóra sínum og reyndi skot langt utan teigs sem fór rétt yfir markið. 

Síðar kom hann boltanum á Andra Lucas Guðjohnsen sem skaut í fyrsta en varnarmaður Eistlands komst fyrir. 

Eistarnir áttu nákvæmari sóknir í fyrri hálfleik og var framherji þeirra Sergei Zenjov fremstur í flokki. Hann fékk nokkur fín skotfæri og skoraði meðal annars glæsilegt mark snemma leiks sem var þó dæmt rangstætt. 

Á 44. mínútu potaði Taijo Teniste boltanum með hælnum á Sergei Zenjov sem tók þrumuskot rétt innan teigs sem fór í slánna og inn og kom Eistunum yfir, 1:0 sem voru hálfleikstölur. 

Íslenska liðið kom sterkara út í seinni hálfleikinn og þegar aðeins sex mínútur voru liðnar af honum fékk Ísland víti. Þá þræddi Nökkvi Þeyr Þórisson Kristal Mána Ingason í gegn sem datt í teignum er Rasmus Peetson virtist tækkla hann og dómarinn benti á punktinn. Í endursýningu sást hins vegar að Peetson hafi alls ekki brotið af sér og heldur komist í boltann. 

Réttlætinu var síðar fullnægt því Karl Andre Vallner, markvörður Eista, varði vítaspyrnuna frá Andra Lucasi, sem var heldur slök og staðan var því óbreytt. 

Andri Lucas fékk svo aftur gott færi til að jafna metin fyrir Ísland eftir snilldarfyrirgjöf frá Davíð Kristjáni Ólafssyni en enn sá Vallner við honum. 

Það sem eftir var sótti íslenska liðið og Eistarnir pökkuðu smám saman meira og meira í vörn. Íslandi gekk þó illa að skapa sér góð færi og Eistland lokaði vel á allar sóknaraðgerðir. 

Það var ekki fyrr en á lokamínútu venjulegs leiktíma sem til tíðinda dró. Þá átti Sveinn Aron Guðjohsen skot sem fór af varnarmanni og rétt fram hjá og úr varð hornspyrna. Úr henni fékk Ísak Snær Þorvaldsson boltann rétt utan teigs og tók skot sem fór í höndina á Markus Soomets og dómarinn benti aftur á punktinn. 

Andri Lucas steig á punktinn í annað skipti í leiknum og tókst að skora í þetta sinn. Hann setti boltann í sama horn og síðast en nú mun ofar og nær horninu. Vallner markvörður var aftur í boltanum en skotið var of fast og hafnaði í netinu, allt þá jafnt, 1:1, sem reyndust lokatölur. 

Ísland á næst leik gegn Svíþjóð, einnig í Algrave, á fimmtudaginn kemur. 

Eistland 1:1 Ísland opna loka
90. mín. Andri Lucas Guðjohnsen (Ísland) skorar úr víti 1:1 - Andri Lucas stígur aftur á punktinn og skorar í þetta skipti! Setur boltann í sama horn og síðast og aftur er Vallner í boltanum. Þetta skot er hinsvegar alltof fast og fer í netið. Vel svarað!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert