Góð reynsla af erlendum þjálfurum hefur áhrif

Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ.
Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ. mbl.isEggert Jóhannesson

„Sem fyrrverandi þjálfari sjálf, horfi ég á reynslu og orðspor,“ sagði Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, í samtali við mbl.is í dag um hvers konar þjálfara hún vil sjá sem næsta landsliðsþjálfara karla, en Arnari Þór Viðarssyni var vikið frá störfum í dag.

„Mér finnst það mjög mikilvægt. Við erum samt ekki komin þangað, því þetta var bara að gerast. Þessi leit að eftirmanni er ekki hafin, en við förum í það fljótlega og förum yfir hvernig ferlið verður. Við höfum ekki farið yfir hverju við erum að leita, en við erum að fara í þá vinnu,“ bætti Vanda við.

Erlendir þjálfarar hafa reynst íslenska liðinu vel á undanförum árum og þá sérstaklega Lars Lagerbäck, sem kom Íslandi á stórmót í fyrsta skipti er liðið tryggði sér sæti á EM 2016 og fór alla leið í átta liða úrslit.

„Við vitum hvað gerðist, en það hefur engin ákvörðun verið tekin. Að sjálfsögðu hefur það [góð reynsla af erlendum þjálfurum] samt áhrif. Við viljum taka góða og ígrundaða ákvörðun en á sama tíma vitum við að næsti gluggi er alltaf að nálgast. Við erum að horfa á 17. júní leikinn á móti Slóvakíu og svo 20. júní á móti Portúgal. Við þurfum bæði að flýta okkur, en á sama tíma passa okkur að við tökum ekki ákvörðun sem reynist ekki góð,“ sagði Vanda Sigurgeirsdóttir.

mbl.is