Fór í sömu vitleysuna

Patrik Johannessen og Hassan Jalloh í leiknum á Kópavogsvelli í …
Patrik Johannessen og Hassan Jalloh í leiknum á Kópavogsvelli í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

„Við vorum heldur betur í basli með HK-menn,“ sagði Höskuldur Gunnlaugsson fyrirliði Breiðabliks eftir 3:4-tap þegar Kópavogsliðin mættust í 1. umferð efstu deildar karla í fótbolta en leikið var á heimavelli Blika.

„Þeir stjórnuðu leiknum og við mættum þeim ekki í baráttu, einvígjum og krafti svo það var ekki bara að við værum ekki í basli með sóknarleikinn heldur vorum í basli í vörninni líka,“ sagði Höskuldur við mbl.is eftir leikinn.

HK var með tveggja marka forystu allt fram á 74. mínútu en Blikar eru of reyndir til að láta það brjóta sig niður. 

Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks.
Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

„Við vorum sammála um að vera ekkert að fara á taugum, eina sem við gátum gert var að vera þolinmóðir og halda hraðanum uppi.  Þeir sem var skipt inn á gerðu vel og við sýndum karakter með því að koma til baka inn í leikinn og náum yfirhöndinni, sem hafði verið í höndum HK.  En svo fer þetta í sömu vitleysuna þegar við komumst yfir og í stað þess að ná stjórninni á leiknum nær HK yfirhöndinni og þetta lá eiginlega í loftinu.“

Breiðablik er víða spáð sigri í deildinni og þó liðinu hafi ekki tekist að ná í þrjú stig núna segir fyrirliðinn það ekki vera endalokin. 

„Við þurfum nú bara að vera trúir sjálfum okkur, við byggjum ekki sjálfsmynd okkar á einstaka úrslitum og skilgreinum okkur eftir þeim svo nú er bara æfing á morgun og svo undirbúningur fyrir næsta leik.  Við lærum bara af þessu,“ sagði Höskuldur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert