ÍA bjargaði stigi á ögurstundu – Grindavík í annað sætið

Hlynur Sævar Jónsson skoraði dramatískt jöfnunarmark ÍA í kvöld.
Hlynur Sævar Jónsson skoraði dramatískt jöfnunarmark ÍA í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

ÍA og Afturelding gerðu jafntefli, 1:1, þegar liðin áttust við í þriðju umferð 1. deildar karla í knattspyrnu á Akranesi í kvöld. Á sama tíma hafði Grindavík betur gegn Njarðvík, 1:0, í Suðurnesjaslag.

Í leik ÍA og Aftureldingar kom Arnór Gauti Ragnarsson Aftureldingu í forystu eftir tæplega hálftíma leik.

Tæplega 20 mínútum fyrir leikslok fékk Sævar Atli Hugason, leikmaður Aftureldingar, beint rautt spjald.

Þrátt fyrir að leika einum færri það sem eftir var virtust gestirnir úr Mosfellsbæ eiga sigurinn vísan en allt kom fyrir ekki þar sem Hlynur Sævar Jónsson jafnaði metin á fjórðu mínútu uppbótartíma og tryggði Skagamönnum þannig stig.

Afturelding er þrátt fyrir að hafa misst af tveimur stigum á toppi 1. deildarinnar með 7 stig.

ÍA hefur byrjað tímabilið illa og er einungis með 2 stig í 11. og næstneðsta sæti.

Grindavík fékk nágranna sína úr Njarðvík í heimsókn.

Marko Vardic skoraði sigurmark heimamanna snemma í síðari hálfleik.

Grindavík er því einnig með 7 stig en er í öðru sæti með ögn lakari markatölur en Afturelding.

Grindvíkingar hafa einungis skorað þrjú mörk en ekki fengið á sig neitt í fyrstu þremur leikjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert