Jafntefli í Keflavík

Caroline Van Slambrouck, Kristín Erna Sigurlásdóttir og Elín Helena Karlsdóttir …
Caroline Van Slambrouck, Kristín Erna Sigurlásdóttir og Elín Helena Karlsdóttir í leik liðanna á síðasta ári. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Keflavík og ÍBV gerðu markalaust jafntefli í 7. umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu í Keflavík kvöld.

Keflvíkingar eru þá með átta stig og ÍBV með sjö stig og liðin eru í sjöunda og áttunda sæti deildarinnar sem stendur.

ÍBV byrjaði fyrri hálfleikinn miklu betur og lá þungt á vörn Keflavíkur án þess að takast að skora. Þegar líða tók á fyrri hálfleik komu Keflavíkurkonur inn í leikinn og áttu nokkur góð færi, það besta kom á 35. mínútu þegar Sandra Voitane komst alein á móti Guðnýju markverði ÍBV sem varði glæsilega.

Á 45. mínútu fékk Þóra Björg Stefánsdóttir dauðafæri fyrir framan mark Keflavíkur en hún skaut í höndina á Veru Varis og þaðan fór boltinn í stöngina. Það var því markalaust í fyrri hálfleik.

Síðari hálfleikur var vægast sagt bragðdaufur. Liðin skiptust á að sækja en sköpuðu lítið. Litlu mátti muna að ÍBV skoraði í eigið mark á 77. mínútu þegar Kristrún Ýr Holm gaf boltann fyrir og leikmaður ÍBV stýrði boltanum í átt að eigin marki. Guðný Geirsdóttir varði hins vegar vel.

Á 86. mínútu sendi Anita Lind Daníelsdóttir boltann fyrir mark ÍBV þar sem Linli Tu skallaði rétt fram hjá. Annað markvisst gerðist ekki í leiknum.

Leiknum lauk því með markalausu jafntefli í mjög svo tíðindalitlum leik.

M-einkunnagjöfin og einkunn dómara verða í Morgunblaðinu í fyrramálið.

Keflavík 0:0 ÍBV opna loka
90. mín. Leik lokið
mbl.is