Leikmaður í efstu deild kærður fyrir brot á veðmálareglum

Steinþór Freyr Þorsteinsson í leik með KA fyrir tveimur árum.
Steinþór Freyr Þorsteinsson í leik með KA fyrir tveimur árum. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Knattspyrnumaðurinn Steinþór Freyr Þorsteinsson, leikmaður KA, hefur verið kærður af aga- og úrskurðarnefnd Knattspyrnusambands Íslands, KSÍ, fyrir brot á veðmálareglum sambandsins.

433.is greinir frá og kveðst hafa öruggar heimildir fyrir.

Þar segir að Steinþór Freyr hafi lagt fram á annan tug veðmála í ýmsum mótum á vegum KSÍ á veðmálasíðunni Pinnacle yfir nokkurra ára tímabil.

Þar á meðal hafi hann veðjað á leik hjá liði sínu KA.

Fyrr á árinu var Sigurður Gísli Bond Snorrason úrskurðaður í árs bann af aga- og úrskurðarnefnd fyrir ítrekuð brot á veðmálareglum KSÍ á síðasta ári. Þá var hann leikmaður Aftureldingar.

Steinþóri Frey var birt sakarefnið af aga- og úrskurðarnefnd fyrir nokkrum vikum síðan, en hann hefur ekki leikið fyrir KA á tímabilinu og var síðast í leikmannahópi liðsins í byrjun maí.

Lét hann leikmenn og þjálfara KA vita af málinu fyrir nokkrum dögum síðan og bíður nú úrskurðar nefndarinnar.

mbl.is