Ekki besta ákvörðun sem ég hef tekið í lífinu

Ívar Orri Kristjánsson veifar gula spjaldinu.
Ívar Orri Kristjánsson veifar gula spjaldinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég sá atvikið skömmu eftir leik og þetta er ekki besta ákvörðun sem ég hef tekið,“ sagði knattspyrnudómarinn Ívar Orri Kristjánsson, í Fyrsta sætinu, íþróttahlaðvarpi mbl.is og Morgunblaðsins. 

Má gagnrýna mig fyrir margt

Ívar Orri dæmdi stórleikinn á Kópavogsvelli sem fram fór á föstudaginn í síðustu viku en mikil umræða skapaðist um og eftir leikinn.

Danijel Dejan Djuric slapp einn í gegn á 28. mínútu en Damir Muminovic stuggaði þá við honum með þeim afleiðingum að hann féll til jarðar.

Danijel fékk að líta gula spjaldið fyrir leikaraskap en Víkingar voru afar ósáttir við dóminn enda um klárt brot hjá Damir að ræða.

„Það má gagnrýna mig fyrir margt og meðal annars fyrir þessa ákvörðun,“ sagði Ívar Orri.

„Við dómarar erum alls ekki heilagri en páfinn en fólk þarf samt að geta sett sig í okkar spor því við erum ekki með myndbandsdómgæslu.

Á þessum tíma var ákveðin tilfinning sem ég hafði og ég dæmdi óbeina aukaspyrnu sem er ekki besta ákvörðun sem ég hef tekið í lífinu,“ sagði Ívar Orri meðal annars.

Hægt er að hlusta á umræðuna í heild í spil­ar­an­um hér fyr­ir ofan en þátt­ur­inn er einnig aðgengi­leg­ur á öll­um helstu hlaðvarps­veit­um.

mbl.is