Stjarnan upp í fjórða sæti

Henríetta Ágústsdóttir með boltann í leiknum í kvöld.
Henríetta Ágústsdóttir með boltann í leiknum í kvöld. mbl.is/Eyþór Árnason

Stjarnan og Fylkir mættust í 6. umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu í kvöld. Leikurinn átti að fara fram úti á heimavelli Stjörnunnar en var færður innandyra í Miðgarð. Leikurinn endaði 2:1 fyrir Stjörnunni sem þýðir að liðið er í fjórða sæti með níu stig eftir sex leiki. Fylkir er hins vegar í áttunda sæti með fimm stig. 

Viðureignin fór af stað af miklum krafti. Bæði lið voru óhrædd að láta vaða á markið og reyna á markmenn liðanna.

Hulda Hrund Arnarsdóttir skoraði fyrsta mark leiksins á 25. mínútu eftir að hafa fengið boltann í gegn, leikið á Tinnu Brá Magnúsdóttur í marki Fylkis og skorað í opið markið.   

Í kjölfarið sótti Fylkir aðeins í sig veðrið og pressaði Stjörnukonurnar stíft. Fylkiskonur náðu þó ekki að jafna leikinn þrátt fyrir nokkrar álitlegar stöður. 

Á 44. mínútu leiksins komst Stjarnan í 2:0 eftir klafs í teignum þar sem boltinn endaði hjá Hönnuh Sharts sem dúndraði honum í netið. Staðan 2:0, Stjörnunni í vil, í hálfleik. 

Stjörnukonur byrjuðu síðari hálfleikinn betur og voru líklegri að bæta við öðru marki en Fylkir að minnka muninn. Caitlin Cosme fékk frábært færi á 55. mínútu leiksins eftir fyrirgjöf frá Úlfu Dís Úlfarsdóttur en skot Caitlin var rétt framhjá. 

Þegar 20 mínútur voru eftir af leiknum vann Marija Radojcic aukaspyrnu rétt fyrir utan vinstra vítateigshorn Stjörnunnar. Eva Rut Ásþórsdóttir, fyrirliðinn, steig upp og tók spyrnuna og smellti boltanum í nærhornið uppi.   

Fylkiskonur pressuðu Stjörnukonur stíft og reyndu eins og þær gátu að jafna leikinn en það gekk ekki. Lokaniðurstaðan í kvöld 2:1 fyrir Stjörnunni.

Stjarnan 2:1 Fylkir opna loka
90. mín. Fylkir fær hornspyrnu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert