Var ekki fýsilegt að spila úti

Caitlin Cosme með boltann í leiknum í kvöld.
Caitlin Cosme með boltann í leiknum í kvöld. mbl.is/Eyþór Árnason

„Gríðarlega gott að fá þessi þrjú stig,“ sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar eftir nauman 2:1-sigur á Fylki í 6. umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu sem fór fram í Miðgarði í kvöld.

„Þótt að maður sé ósáttur með seinustu 20 mínúturnar að hleypa leiknum upp í „panik“ þá þarf maður að minna sig á það að við unnum leikinn,“ sagði Kristján í viðtali við mbl.is.

„Grunnurinn var að við spiluðum góðan fyrri hálfleik. Liðið spilaði sem heild allan leikinn og varnarleikurinn var sérstaklega góður og við sköpuðum færi.

Við skorum hins vegar ekki þriðja markið, við bjuggum til færi fyrir það til að slökkva á leiknum en það gekk ekki og það er alltaf stórhættulegt, sérstaklega á móti liði eins og Fylki sem berst allan tímann,“ hélt hann áfram.

Leikurinn var með stuttum fyrirvara færður inn í Miðgarð, hvernig fannst þér það ganga?

„Það gekk vel að því leytinu til að það var ekki fýsilegt að spila úti,“ sagði Kristján.

Stjarnan fer á Hlíðarenda í næstu umferð og mætir Val eftir landsleikjahléið.

„Við þurfum að undirbúa okkur gríðarlega vel fyrir hann og halda áfram með sömu liðsheild inni á vellinum. Þetta verður svakalegur og erfiður leikur fyrir okkur,“ sagði hann að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert