Full opinn leikur fyrir minn smekk

Rúnar Kristinsson
Rúnar Kristinsson Ljósmynd/Kristinn Steinn

Rúnar Kristinsson var að mestu leyti ánægður með frammistöðu síns liðs í samtali við mbl.is í Úlfarsárdalnum í dag þrátt fyrir 4:1 tap gegn Breiðablik.

„Fínn leikur bara fram að 2:1 marki Blika, við vorum inni í leiknum allan tímann og leikurinn var þokkalega jafn. Við vissum fyrirfram að Blikar yrðu líklega meira með boltann og við ákváðum að leyfa þeim það á ákveðnum stöðum en mér fannst í lok fyrri hálfleiks og aftur fram að markinu í síðari hálfleik þetta var jafn leikur“.

Framarar spiluðu agaðan varnarleik að venju og gerðu vel í skyndisóknum í leiknum í dag en náðu ekki að skora fleiri en eitt. Annað mark Breiðabliks hleypti auknu lífi í gestina sem unnu að lokum með þremur mörkum.

„Leikurinn var full opinn fyrir minn smekk þar sem maður vill ekki fá Blikana of hratt á sig sem gerist síðan í 2:1 markinu þegar við töpum boltanum í slæmri stöðu og þeir eru góðir að nýta sér slíkar stöður. Þriðja og fjórða markið fá þeir síðan á silfurfati frá okkur þannig að tölurnar líta miklu verr út en leikurinn að mínu mati“.

Eftir gott gengi og sérstaklega öflugan varnarleik í byrjun móts fengu Framarar á sig fjögur mörk í dag, er það áhyggjuefni upp á framhaldið að mati Rúnars?

„Ég held að það sé ekkert vandamál, menn gáfust aldrei upp eða neitt slíkt. Við vitum alveg að við getum ekki farið í gegnum mótið án þess að fá á okkur stundum tvö-þrjú mörk í stöku leikjum og við höfum haldið markinu hreinu og fengið fá mörk á okkur hingað til þannig að við höfum ekki miklar áhyggjur af varnarleiknum okkar,“ sagði Rúnar að lokum í samtali við mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert