Tap gegn Sviss en vonin lifir

Ísland mátti sætta sig við 2:1-tap gegn Sviss í öðrum leik sínum á EM kvenna í knattspyrnu í Doetinchem í Hollandi í dag. Ísland á þó enn von um að komast áfram í 8-liða úrslitin.

Frakkland og Austurríki eru með 3 stig hvort og mætast í kvöld. Sviss er einnig með 3 stig en Ísland án stiga. Tvö liðanna komast í átta liða úrslit.

Möguleikar Íslands felast í því að Frakkland vinni báða leiki sína, gegn Austurríki í kvöld og Sviss á þriðjudag, og að Ísland vinni Austurríki. Þá yrðu Ísland, Sviss og Austurríki með 3 stig hvert og innbyrðis markatala myndi ráða úrslitum. Austurríki vann Sviss 1:0 og því myndi tveggja marka sigur duga Íslandi í þessu tilviki, en eins og fyrr segir þarf Ísland nú að treysta á Frakka.

Ísland komst yfir í kvöld með glæsilegu marki. Dagný Brynjarsdóttir fékk boltann á miðjunni og sendi nánast blindandi, frábæra sendingu yfir vörn Sviss á Fanndísi Friðriksdóttur sem nýtti hraða sinn vel, ein gegn varnarmanni, og skoraði af öryggi í hægra hornið. Þetta var hennar fyrsta mark á stórmóti, en aðeins Hólmfríður Magnúsdóttir, Margrét Lára Viðarsdóttir og Dagný höfðu skorað fyrir Ísland á stórmóti.

Sviss náði hins vegar að jafna metin rétt fyrir lok fyrri hálfleiks þegar Lara Dickenmann skoraði úr teignum eftir sendingu Ramonu Bachmann. Snemma í seinni hálfleik skoraði Bachmann svo sjálf með skalla af stuttu færi, eftir fyrirgjöf Noelle Maritz frá vinstri.

Íslenska liðið gerði það sem það gat til að sækja jöfnunarmark, dyggilega stutt af þúsundum bláklæddra stuðningsmanna í stúkunni, en það tókst ekki.

Íslandi tókst ekki að skapa mörg góð færi en hefði átt að fá vítaspyrnu um miðjan seinni hálfleik, þegar skalli Dagnýjar Brynjarsdóttur fór í hönd leikmanns Sviss innan teigs. Hinn ítalski dómari leiksins, Anastasia Pustovoitova, dæmdi hins vegar ekkert, eins iðinn og hún var við að dæma á íslenska liðið í leiknum.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is og viðtöl koma inn síðar í kvöld.

Ísland 1:2 Sviss opna loka
90. mín. Leik lokið
mbl.is

Bloggað um fréttina