England með ósanngjarnt forskot

Luka Modric á blaðamannafundi í gær.
Luka Modric á blaðamannafundi í gær. AFP

Luka Modric, fyrirliði Króatíu, segir England vera með ósanngjarnt forskot í D-riðli Evrópumótsins í knattspyrnu þar sem liðið fái að spila alla þrjá leiki sína í riðlinum á Wembley í Lundúnum.

„Allir geta verið sammála því að lið á heimavelli með stuðningsmenn séu með smá forskot,“ sagði Modric við BBC í gær.

Auk þess sem England spilar alla þrjá leiki sína í riðlinum á Wembley munu tveir leikir í 16-liða úrslitum EM, báðir undanúrslitaleikirnir og úrslitaleikurinn fara fram á vellinum.

Spurður hvort honum þætti England því vera með ósannngjarnt forskot á mótinu, sem fer fram um alla Evrópu, sagði Modric:

„Mér finnst það já. Það er synd og skömm að það verði ekki margir stuðningsmenn Króatíu á vellinum því nærvera þeirra er mjög áþreifanleg þegar þeir eru á svæðinu.

En það er bara eins og það er. Við þurfum að einbeita okkur að vellinum og láta ekki umhverfið trufla okkur.“

Hann bætti því að honum þætti England vera eitt sigurstranglegasta liðið á EM.

„Ég hef mjög mikið álit á þeim. Þeir eru sannarlega eitt sigurstranglegasta lið mótsins. Það þýðir þó ekki að við ætlum ekki að mæta þarna og reyna að spila frábæran leik og reyna að ná í úrslit.“

mbl.is