Heimakonur tryggðu sér sæti í undanúrslitunum

Boltinn á leiðinni í fjærhornið.
Boltinn á leiðinni í fjærhornið. AFP

England er komið í undanúrslit eftir 2:1 sigur á Spáni í fyrsta leik 8-liða úrslitana á Evrópumóti kvenna í fótbolta í Brighton í kvöld. 

Eftir venjulegan leiktíma var staðan jöfn, 1:1 og því þurfti framlengingu til að útkljáa málin. Í henni steig Georgia Stanway upp og skoraði glæsilegt sigurmark á 96. mínútu fyrir enska liðið.

Fyrir leikinn var England talið sterkari aðilinn en spænska liðið missti bæði markaskorarann Jennifer Hermoso og besta leikmann heims Alexia Putellas í meiðsli fyrir keppnina.

Þær spænsku byrjuðu leikinn betur en náðu ekki að búa til upplögð marktækifæri. 

England vann sig svo aðeins inn í leikinn, en bæði lið vöruðust vel og gáfu ekki mörg færi af sér.

Ellen White, framherji Englands, setti boltann í netið á 37. mínútu þegar boltinn datt fyrir hana inn í teig. Hún var síðan réttilega dæmd rangstæð og markið fékk ekki að standa. 

Þegar níu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik fór Athenea del Castillo léttilega framhjá Rachel Daly, lagði svo boltann út á Esther González sem tók snertingu og lagði svo boltann listilega í fjær, 1:0 og þær spænsku komnar yfir. 

Varamaðurinn Ella Toone jafnaði svo metin á 84. mínútu. Þá féll boltinn fyrir hana inn í teignum eftir að Alessia Russo vann skallabolta, Tonne setti hann svo framhjá Söndru Panos i marki Spánar, 1:1 og allt jafnt. 

Fleiri urðu mörkin ekki í venjulegum leiktíma og því framlenging niðurstaðan. 

Þegar sex mínútur voru liðnar af framlengingunni fékk Georgia Stanway boltann frá Keiru Wash, Stanway hljóp upp með boltann og hefði getað sent til hægri. Hún lét hinsvegar bara vaða, fyrir utan teig, og boltinn söng í netinu, 2:1 og heimakonur komnar í góða stöðu. 

Spænska liðið fékk nokkur færi til að koma sér aftur inn í leikinn en ekkert vildi inn og eru það því heimakonur sem fara í undaúrslitin. 

Þar mætir enska liðið annaðhvort Belgíu eða Svíþjóð í Sheffield á þriðjudaginn í næstu viku. 

Ella Toone fagnar marki sínu í kvöld.
Ella Toone fagnar marki sínu í kvöld. AFP
Esther González fagnar marki sínu.
Esther González fagnar marki sínu. AFP
mbl.is

LEIKIR Í DAG - 7. DESEMBER

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 7. DESEMBER

Útsláttarkeppnin