Alexander mátti ekki skrifa með vinstri

Alexander Petersson sækir á vörn Noregs í leiknum í gærkvöld.
Alexander Petersson sækir á vörn Noregs í leiknum í gærkvöld. Ljósmynd / Foto Olimpik

Alexander Petersson segir í viðtali við heimasíðu Evrópumótsins í handbolta að það hafi verið stórt og erfitt skref fyrir sig á sínum tíma að flytja til Íslands til þess að spila handbolta, fyrir átján árum síðan.

Eins og margir Íslendingar vita kom Alexander frá Lettlandi til þess að spila með Gróttu/KR árið 1998 áður en draumurinn um að spila í bestu landsdeild heims, þýsku 1. deildinni, rættist þegar hann fór til Düsseldorf árið 2003. Síðan þá hefur Alexander spilað í Þýskalandi, nú hjá toppliði Rhein-Neckar Löwen.

„Ég kom frá Lettlandi. Þetta var stórt skref. Þetta var erfiður tími á Íslandi, ég þurfti að vinna aukavinnu og læra tungumálið og inn á menninguna,“ sagði Alexander við heimasíðu EM.

„Það var mikil breyting fyrir mig að leggja handboltaferilinn fyrir mig. Draumurinn var að spila í Þýskalandi. Hver einasti leikur þar er svo spennandi. Maður er alltaf vel gíraður og gerir sitt besta,“ sagði Alexander, sem átti frábæran leik í vörn Íslands þegar liðið vann Norðmenn í gær.

Þessi 35 ára gamli leikmaður hefur lengi glímt við axlarmeiðsli auk þess sem nárameiðsli hafa truflað hann síðasta hálfa árið, en hann lætur það ekki stöðva sig. „Það er í mínum karakter að gera alltaf mitt besta og sýna hvað ég get. Hver einasti leikur er úrslitaleikur,“ sagði Alexander, sem er einmitt þekktur fyrir keppnisskap sitt og baráttu innan vallar. Hann benti svo á athyglisverða staðreynd sem gæti hafa hjálpað honum í varnarleiknum í gegnum tíðina:

„Í skóla átti ég ekki að skrifa og borða með vinstri hendinni. Það var leiðrétt. Þess vegna er ég rétthentur í daglegu lífi, en í íþróttunum er ég enn örvhentur. Ég get samt notað hægri höndina í vörn til að stoppa andstæðingana eða tækla þá,“ sagði Alexander.

mbl.is