Risasigur Króata í slagnum við Serba

Lino Cervar er afar sigursæll þjálfari og stýrir Króatíu.
Lino Cervar er afar sigursæll þjálfari og stýrir Króatíu. AFP

Króatía er auk Íslands með tvö stig eftir fyrstu umferð í A-riðli Evrópumótsins í handknattleik sem hófst þar í landi í dag en gestgjafarnir unnu öruggan sigur á nágrönnum sínum frá Serbíu, 32:22, í síðari leik riðilsins í Split í kvöld.

Króatar skoruðu fyrsta mark leiksins og tóku frumkvæðið strax. Serbar reyndu hvað þeir gátu að hemja andstæðinginn en þvert á móti gáfu Króatar í og höfðu fimm marka forskot í hálfleik 14:9.

Króatar slökuðu lítið á eftir hlé og forskot þeirra var aldrei í hættu. Munurinn jókst jafnt og þétt og þegar yfir lauk fögnuðu Króatar tíu marka sigri, 32:22. Luka Stepancic og Manuel Strlek voru markahæstir hjá Króötum með sex mörk eins og Petar Nenadic hjá Serbíu.

Króatía setti met með sigrinum, en aldrei hafði liðið unnið svo stóran sigur gegn Serbíu. Stærsti sigurinn fram að þessu var átta marka sigur, 31:23, á Ólympíuleikunum í London árið 2012.

Ísland og Króatía mætast í annarri umferð riðilsins á sunnudagskvöld en Serbía mætir Svíþjóð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert