„Þetta var geggjað“

Aron Pálmarsson í leiknum í dag.
Aron Pálmarsson í leiknum í dag. Ljósmynd/EHF

„Þetta var geggjað,“ sagði Aron Pálmarsson í samtali við mbl.is í Split þegar sætur 26:24 sigur á Svíum var í höfn í fyrsta leik liðanna í A-riðli EM. 

Ísland var yfir 15:8 eftir magnaðan fyrri hálfleik og náði um tíma tíu marka forskoti í síðari hálfleik áður en Svíar tóku við sér og söxuðu á forskotið. Aron nefnir að íslenska liðið hafi haldið sig við að spila lengri sóknir þótt spennan væri farin að aukast og íslenska liðinu hafi gengið illa um tíma. 

„Þetta var eitthvað sem við ætluðum okkur. Í fyrri hálfleik heppnaðist 95% af okkar aðgerðum og þá fannst mér við spila frábærlega. Við vorum vel undirbúnir og Svíarnir áttu ekki möguleika í fyrri hálfleik, hvorki í vörn né sókn. Þessi byrjun skóp sigurinn enda var sjö marka forskot í hléi. Við héldum það út en auðvitað náðu þeir að klóra í bakkann. Ég veit ekki hvort það var vegna einbeitingarleysis hjá okkur eða hvort okkur fannst þetta vera orðið of þægilegt. Mér fannst við þó spila ágætlega í seinni hálfleik. Við styttum ekki sóknirnar að ráði sem er jákvætt. En við gerðum nokkur mistök á þessum kafla þegar þeir söxuðu á forskotið og lærum af því. Mér fannst við eiga skilið að vinna þegar uppi er staðið. Við sýndum í dag að við erum frábært lið þegar við spilum okkar vörn og setjum sóknin vel upp enda ekki oft sem maður nær tíu marka forskoti á EM. Á góðum degi getum við gert ótrúlega hluti,“ sagði Aron Pálmarsson. 

mbl.is

Bloggað um fréttina