Króatar sluppu á ögurstundu

Luka Cindric með boltann í leiknum í kvöld en Maxim …
Luka Cindric með boltann í leiknum í kvöld en Maxim Babichev er til varnar. AFP

Gestgjafar Króata sluppu sannarlega á ögurstundu gegn Hvíta-Rússlandi í milliriðli Evrópumótsins í handknattleik í kvöld, en í blálokin tryggði liðið sér sigurinn 25:23.

Króatar voru með frumkvæðið í fyrri hálfleik og náðu meðal annars fimm marka forskoti 13:8, en Hvíta-Rússland náði að minnka muninn fyrir hlé þar sem staðan var 15:12 fyrir Króata. Eftir hlé jafnaðist leikurinn á ný og þegar Hvíta-Rússland skoraði þrjú mörk í röð varð allt hnífjafnt, 23:23, og rétt rúmar tvær mínútur eftir.

Króatar náðu hins vegar að kreista út síðustu tvö mörk leiksins og uppskera stigin tvö, 25:23. Þeir Luka Stepancic og Marko Mamic voru markahæstur hjá Króötum með fimm mörk en Andrei Yurynok skoraði sex fyrir Hvíta-Rússland.

Króatar eru nú með fjögur stig í milliriðli 1 eins og Norðmenn eftir fyrstu leikina, en bæði Svíar og Frakkar eru einnig með fjögur stig og eiga leik til góða. Hvíta-Rússland og Serbía eru án stiga í riðlinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert