Danir lofa miklu fjöri gegn Svíum

Mikkel Hansen og félagar mæta Svíum á morgun.
Mikkel Hansen og félagar mæta Svíum á morgun. AFP

Það verður alvöru Norðurlandaslagur í undanúrslitum Evrópumótsins í handknattleik þegar Svíþjóð og Danmörk leiða saman hesta sína í baráttunni um sæti í úrslitaleiknum.

Danir unnu sinn milliriðil með 8 stig og eina tap þeirra á mótinu hingað til kom gegn Tékkum  í 2. umferð riðlakeppninnar. Svíar, undir stjórn Kristjáns Andréssonar, töpuðu einnig fyrsta leik í riðlinum – gegn Íslandi, og töpuðu einnig gegn Noregi í milliriðli í gær en enduðu þó í öðru sæti í sínum milliriðli.

„Þetta er svakalegur Skandinavískur grannaslagur. Það er alltaf gaman að spila við nágrannana og ég lofa því að þetta verður æsispennandi handboltaleikur,“ sagði Mikkel Hansen, ein skærasta stjarna Dana, við fjölmiðla í dag en leikur liðanna fer fram á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert