Þetta er vont en það venst

Ágústa Hrönn Gísladóttir ásamt móðursystur sinni.
Ágústa Hrönn Gísladóttir ásamt móðursystur sinni. mbl.is/Bjarni Helgason

„Stemningin er geggjuð, í bland við stress, eins og gengur og gerist fyrir þessa blessuðu handboltaleiki,“ sagði Ágústa Hrönn Gísladóttir, móðir landsliðsmarkvarðarins Viktors Gísla Hallgrímssonar, í samtali við mbl.is á Hofbrähaus í München í Þýskalandi í dag.

Íslenska karlalandsliðið í handbolta mætir Ungverjalandi í lokaleik sínum í C-riðli Evrópumótsins í Ólympíuhöllinni í München klukkan 19:30 en með sigri fer Ísland með tvö stig inn í milliriðlakeppnina.

„Það er búið að vera ofboðslega gaman hérna í München og orkan hjá stuðningsmönnum Íslands er í hæstu hæðum. Ég veit að leikmennirnir munu gefa allt sitt í þennan leik og við áhorfendurnir ætlum að gera slíkt hið sama. Þetta er þriðja stórmótið sem ég fer að horfa á hann en það sem gleður mig mest er hvað stuðningsmenn Íslands eru alltaf jafn glaðir, alveg sama hvað gengur á,“ sagði Ágústa Hrönn.

Á von á hörkuleik

Viktor Gísli stendur á milli stanganna hjá íslenska liðinu og þarf oft að glíma við skot sem koma á yfir 130 kílómetrahraða í átt að markinu.

„Þetta er vont en það venst og ég er í raun alveg búin að stilla hausinn minn á það að pæla bara ekkert í þessu, Ef ég væri að pæla of mikið í þessu yrði ég vægast sagt ein taugahrúga. Annars á ég von á hörkuleik og þetta verður tæpur eins marks sigur hjá okkur,“ bætti Ágústa Hrönn við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert