Sahin fer til Liverpool á láni

Nuri Sahin spilar með Liverpool í vetur.
Nuri Sahin spilar með Liverpool í vetur. Ljósmynd/Real Madrid

Tyrkneski miðjumaðurinn Nuri Sahin er væntanlegur á Melwood, æfingasvæði Liverpool, í dag þar sem hann mun gangast undir læknisskoðun en gengið hefur verið frá samningum við Real Madrid og leikmanninn sjálfan.

Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool, opinberaði þetta á blaðamannafundi í dag en hann vonast til þess að lánssamningur Sahins gangi í gegn á næstu 24 tímum.

„Við erum að vonast til að klára þetta. Ég held að það sé búið að ganga frá allri pappírsvinnu þannig við vonumst til að þetta klárist á næstu 24 tímum,“ sagði Rodgers.

Sahin var við það að fara á láni til Arsenal þegar Arsene Wenger, knattspyrnustjóra liðsins, snerist hugur. Vildi hann íhuga frekar að kaupa leikmanninn en fá hann á láni.

Hik Wengers varð til þess að umboðsmaður Sahins ræddi við forráðamenn Liverpool og er Tyrkinn nú á leið á Anfield í stað Emirates.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert