Kenedy sleppur við leikbann

Kenedy átti erfiðan dag í Cardiff.
Kenedy átti erfiðan dag í Cardiff. AFP

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Kenedy mun ekki þurfa að taka út leikbann fyrir að hafa sparkaði í Victor Camarasa í leik Newcastle og Cardiff í ensku úrvalsdeildinni um helgina.

Kenedy átti heldur skrautlegan leik í Cardiff; hann beið í næstum klukkutíma eftir fyrstu heppnuðu sendingunni sinni og misnotaði svo vítaspyrnu í uppbótartíma til að vinna leikinn fyrir Newcastle en hann endaði markalaus. Snemma leiks sparkaði hann svo fast í Camarasa þegar boltinn var hvergi nálægur en Craig Pawson, dómari leiksins, sá ekki atvikið.

Neil Warnock, knattspyrnustjóri Cardiff, var óánægður eftir leik og sagði Kenedy hafa átt að fá beint rautt spjald. Aukaspyrna var hins vegar dæmd eftir atvikið og það því talið útkljáð af aganefnd enska knattspyrnusambandsins en hún getur aðeins úrskurðað um afturvirk bönn ef dómarinn tók ekki á atvikinu í leiknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert