Sterling á ofurlaunum til 2023

Raheem Sterling er hæstánægður hjá Manchester City enda hefur honum ...
Raheem Sterling er hæstánægður hjá Manchester City enda hefur honum gengið allt í haginn hjá félaginu. AFP

Enski landsliðsmaðurinn Raheem Sterling hefur skrifað undir nýjan samning við Englandsmeistara Manchester City og gildir samningurinn til ársins 2023.

Samkvæmt frétt BBC mun Sterling fá allt að 300.000 pundum á viku, sem á núverandi gengi jafngildir 47,8 milljónum króna. Það þýðir að Sterling fær hátt í sjö milljónir króna á dag fyrir sín störf. Hann verður einn allra best launaði enski leikmaðurinn í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu samkvæmt frétt BBC.

„Ég er hæstánægður. Það er ótrúlegt hvernig ég hef þróast hér sem leikmaður,“ sagði Sterling eftir að hafa skrifað undir nýja samninginn, en hann kom til City frá Liverpool fyrir 49 milljónir punda árið 2015.

Sterling skoraði 23 mörk á síðustu leiktíð þegar City varð Englandsmeistari og vann enska deildabikarinn. Hann hefur skorað sjö mörk á yfirstandandi leiktíð. Sterling er 23 ára gamall og á að baki 46 leiki fyrir enska landsliðið.

mbl.is