Chelsea hafnar ásökunum og áfrýjar

Chelsea ætlar að áfrýja úskurði FIFA.
Chelsea ætlar að áfrýja úskurði FIFA. AFP

Bæði Chelsea og enska knattspyrnusambandið, FA, ætla að áfrýja úrskurði FIFA en Alþjóðaknattspyrnusambandið setti Chelsea í morgun í félagaskiptabann og sektaði FA vegna kaupa félagsins á leikmönnum undir 18 ára aldri.

„Við höfnum alfarið niðurstöðum aganefndar FIFA og munum þar af leiðandi áfrýja ákvörðuninni,“ segir í yfirlýsingu Chelsea.

Félagaskiptabannið átti að ná yfir næstu tvo félagaskiptaglugga, eða fram að sumrinu 2020, en Chelsea var gefinn þriggja daga frestur til að áfrýja sem nú er ljóst að félagið mun nýta sér. Félagið fékk einnig sekt upp á 63 milljónir króna og enska knattspyrnusambandið fékk örlítið lægri sekt fyrir að sofa á verðinum.

Rannsókn FIFA mun hafa staðið yfir í þrjú ár og brot Chelsea munu vera 29 talsins. Á meðal leikmanna sem félagið mun hafa náð sér í ólöglega, samkvæmt Sky Sports og BBC, er Bertrand Traore sem félagið fékk árið 2013.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert