Sér eftir „svívirðilegu“ broti gegn Liverpool

Yasser Larouci fluttur meiddur af velli í nótt.
Yasser Larouci fluttur meiddur af velli í nótt. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var mjög ósáttur eftir afar glæfralega tæklingu leikmanns Sevilla á lærisvein hans sem varð til þess að kalla þurfti á sjúkrabörur þegar liðin mættust í æfingaleik í Bandaríkjunum í gærkvöld.

Joris Gnagnon, leikmaður Sevilla, fékk þá að líta rauða spjaldið eftir afar ljóta tæklingu á hinn 18 ára gamla Yasser Larouci, leikmann Liverpool. Gnagnon sparkaði þá fast í sköflunginn á Larouci sem kominn var fram hjá honum og var umsvifalaust rekinn í sturtu. Hinn 18 ára gamli Larouci var borinn af velli, en Sevilla vann leikinn 2:1.

„Tímabilið er ekki einu sinni byrjað svo ég ætla ekki að segja strax hvað mér virkilega finnst um þetta og búa til fyrirsagnir. Það lítur hins vegar út fyrir það að það sé heppni að ekki hafi farið verr. En við þurfum að bíða aðeins og sjá hversu alvarlegt þetta er,“ sagði Klopp eftir leikinn.

Gnagnon baðst afsökunar eftir leikinn og sendi út tilkynningu á Twitter-síðu sinni.

„Ég vil opinberlega biðja Liverpool afsökunar, fjölskyldu leikmannsins og stuðningsmenn. Þetta var svívirðileg tækling hjá mér og eitthvað sem á ekki að sjást á fótboltavelli. Ég bið fyrir leikmanninum og hans fjölskyldu,“ skrifaði Gnagnon.

Yasser Larouci fellur í grasið eftir að hafa fengið spark …
Yasser Larouci fellur í grasið eftir að hafa fengið spark í sköflunginn frá Joris Gnagnon í leiknum í nótt. AFP
mbl.is